Fyrir nokkru birtist frétt af unglingi sem var kominn í vond mál vegna uppsafnaðra skulda sem voru tilkomnar vegna kannabisneyslu. Aðilinn, sem hafði tekið að sér það áhættusama hlutverk að útvega og selja hinum ýmsu neytendum kannabisefni, sá bersýnilega ekkert rangt við það að láta þessum unglingi ólögleg efni í té þrátt fyrir að kaupandinn væri bæði ungur að aldri og ætti í ofanálag enga peninga. Ég sá þarna tækifæri til að benda á, í athugasemdarkerfi við fréttina, að svona klúðurslegt viðskiptafyrirkomulag myndi varla eiga sér stað ef markaður með kannabisefni væri undir löglegu regluverki líkt og nú er gert með áfengi. Allmargar sambærilegar athugasemdir bættust við fréttina og af viðbrögðunum að dæma má álykta að fjölmargir geri sér fulla grein fyrir fáranleikanum og þeim alvarlegu afleiðingum sem felast í því að viðhalda fjölmörgum vímuefnum á ólöglegum markaði. Örfáir einstaklingar sem málið létu sig varða töluðu hinsvegar harkalega gegn lögleiðingu kannabisefna - og/eða annarra vímuefna sem í dag eru ólögleg - sem leiddi af sér ágætis rökræðu í athugasemdakerfi fréttarinnar. Einn ötulasti talsmaður þeirrar dapurlegu stefnu að halda dreifingu og sölu kannabisefna innan ólöglegs markaðs og í höndum glæpamanna kaus af einhverjum ástæðum að koma ekki fram undir eigin nafni heldur notaði hann dulnefnið Alex Gudmundsson sem er bundið við hans gervi-fésbókarsíðu. Hér kýs ég að kalla hann Óla Þór.
Segja má að Óli Þór hafi farið offorsi í athugsemdakerfi fréttarinnar þar sem hann sakaði allflesta um að vera ófæra um gagnrýna hugsun og röksemdarfærslu. Ein helstu rök Óla Þórs fyrir því að ekki ætti að gera kannabisefni né nein önnur ólögleg vímuefni lögleg má draga saman í eftirfarandi fullyrðingar: „Fíkniefni eru slæm - punktur“ og „við verðum að hugsa um ungmennin“. Í fyrstu kunna þetta að hljóma sem gegnheil rök gegn lögleiðingu og/eða umbótum í vímuefnamálum en þegar grannt er skoðað sést að þetta eru einungis innihaldslausir frasar sem hafa enga vigt í slíkum málflutningi. Því fíkniefni eru jú ekki í heildina slæm þó þau geti verið það í ákveðnum tilvikum og það liggur beint við að þau eru minna slæm, og meira góð, ef þau eru lögleg. Eins ættum við að sjálfsögðu að hugsa um ungmennin þegar kemur að vímuefnamálum en það gerum við ekki með því að refsa þeim þegar þau verða fullorðin.
Eru fíkniefni slæm, spurningarmerki?
Það að fíkniefni séu á einhvern eðlislegan hátt alfarið slæm er algjörlega rangt og á líklega eingöngu við einstaka fíkniefni. Leiða má að því líkum að að næstum öll lyf geri nettó gagn frekar en nettó ógagn. Kannski hugsa sumir „Hvað með heróín? Það hlýtur að vera slæmt fíkniefni - punktur“. En heróín er í raun nánast það sama og morfín sem aftur er mikið notað af fólki sem þarf að fara í skurðaðgerðir eða er að kljást við óbærilegan sársauka af völdum krabbameins eða annarra sjúkdóma. Ríkisstjórnir sumra landa hafa tekið upp þá ómannúðlegu og óverjandi stefnu að leyfa ekki morfín eða skyld lyf í sínum heilbrigðiskerfum og líklega er enginn sem myndi kjósa slíkt gerræði inn í okkar heilbrigðiskerfi. Frá þessu sjónarhorni má það liggja ljóst fyrir að heróín, morfín og aðrir ópíatar eru að gera fleirum gott heldur en slæmt. Vissulega er það svo að þeir einstaklingar sem eru fíknisjúkir í ópíata eiga virkilega um sárt að binda en þessir einstaklingar eru mun færri en þeir sem njóta eða gætu notið góðs af efninu. Svo er það þannig, að hvort maður þrói með sér fíkn í ópíatalyf, eða önnur lyf, hefur ekki eins mikið með efnin sjálf að gera eins og margir vilja vera láta, heldur spila einstaklingsbundnir, félagslegir og sálfræðilegir þættir þar inn í. Það kemur bersýnilega fram í því að langtumflestir sem hafa tekið morfín daglega yfir jafnvel margra vikna legu á spítala þróa ekki með sér óstjórnlega fíkn í efnið.
Ef við förum úr ópíötum og skoðum kannabisefni þá eru dæmi um að foreldrar barna sem þjást af flogaveiki, oft með þeim afleiðingum að börnin fá ótal flog á hverjum degi, hafa þaulreynt ýmis lyf og aðferðir áður en þau láta reyna á að gefa börnunum sínum kannabis sem veldur því að flog barnanna snarminnka og þau ná fljótlega að lifa heilbrigðu lífi. Að minnsta kosti svo heilbrigðu að það er himinn og haf á milli þess sem áður var.
Í Bandaríkjunum flytjast fjölskyldur búferlum milli fylkja til þess eins að geta veitt börnum sínum kannabismeðferð í löglegu og faglegu umhverfi. Slíkar sögur eru í fjölda útgáfa sem auðvelt er að nálgast á netinu og nýjustu rannsóknir benda til að kannabismeðferðir geti hjálpað stórum hóp þeirra sem kljást við slík veikindi.
Ég leyfi mér að fullyrða að jafnvel Óli Þór myndi ekki segja við þessa foreldra að kannabis sé slæmt, punktur. Þó svo að sögur af flogaveikum börnum séu til þess fallnar að vekja sterk viðbrögð þá er það aðeins örlítill hluti þeirra sem nota kannabis í lækningaskyni en kannabis er nú leyfilegt í lækningaskyni í þónokkrum löndum og þar með talið mörgum fylkjum Bandaríkjanna. Einn helsti tilgangur þess að kannabis er ávísað í lækningaskyni er linun verkja, en kannabis virkar vel á ákveðnar tegundir af verkjum og yfirleitt með mun vægari aukaverkunum en önnur verkjalyf. Fullnægjandi listi yfir þá kvilla sem sjúklingar nota kannabis við verður ekki listaður hér en auk verkja má nefna uppköst, ógleði, minnkuð matarlyst, MS, Crohn’s sjúkdóm, gláku og ýmis geðvandamál. Auðvitað er helsta notkun kannabisefna falin í því að fólk noti það sér til skemmtunar, afþreyingar og dægrastyttingar, líkt og þekkist með áfengi. Kannabis er langvinsælasta ólöglega vímuefnið og milljónir manna nota það reglulega án þess að verða öðrum til ama. Auðvitað er kannabis ekki skaðlaust og það eru sumir sem þróa með sér fíkn í efnið og valda sér skaða með mikilli og langvarandi notkun. Það er þó aðeins örlítill hluti notenda sem tilheyrir þeim hópi og alveg ljóst að fyrir þá, sem og aðra, gerir lögbann ekkert gagn.
Það mætti jafnvel ganga svo langt að segja að áfengi, þrátt fyrir að vera eitt skaðlegasta vímuefni sem fyrirfinnst í samfélaginu, geri nettó gagn. Að minnsta kosti neytir fjöldi fólks reglulega áfengis sér til skemmtunar og enginn er að berjast fyrir því að það verði gert að refsiverðu athæfi. Engu að síður þurfum við að halda áfram á þeirri braut að minnka og takmarka skaðann sem hlýst af áfengisneyslu, en í því samhengi má nefna að áfengisneysla unglinga hefur minnkað til muna seinustu ár þökk sé góðu regluverki, skilvirkum forvörnum og miðlun upplýsinga. Sígarettutóbak er hugsanlega það fíkniefni sem erfitt er að gera sér í hugarlund að geri meira gagn en ógagn. Það nýtist vissulega til þess að svala fíkn en það telur ekki mikið þegar litið er til þess að ekkert fíkniefni orsakar fleiri sjúkdóma eða leiðir fleiri til dauða heldur en sígarettureykur. Góðu fréttirnar eru samt þær að sígarettureykingar eru á undanhaldi, að minnsta kosti á Íslandi, og færri unglingar byrja að reykja í dag en áður fyrr. Við þennan lista má svo bæta þeim aragrúa læknalyfja sem seld eru í apótekum sem vissulega eru stundum misnotuð en ætla má að geri fremur gagn en ógagn þegar á heildina er lit
Notkun staðhæfingarinnar „Fíkniefni eru slæm - punktur“ sem einhvers konar úrslitarraka gegn lögleiðingu vímuefna ber vott um afar þrönga sýn á viðfangsefnið og engan vilja til þess að ræða málið af alvöru og einurð til þess að koma þessum málum í lausnamiðaðan farveg. Íslandsvinurinn og helsti sérfræðingur á sviði fíknar og geðsjúkdóma, Gabor Mate, benti svo réttilega á að neysla fíkniefna er aldrei upphafið að neinni fíkn heldur er neyslan alltaf svar fólks til að sefa sársauka sem er til staðar fyrir. Það er þessi sársauki sem er orsök fíknar sem á oft rætur að rekja til áfalla á lífsleiðinni, oft snemma á uppeldisárunum.
Út frá því er það algjörlega röng nálgun að kenna efnunum eða neyslu þeirra um hvernig komið er fyrir hinum ýmsu fíklum. Fíkniefnin og neysla þeirra er bara blórabögull fyrir djúpstæðari vandamál. Einnig er það því algjörlega óboðlegt að dæma alla neytendur ólöglegra lyfja sem forfallna fíkla þegar raunin er að aðeins lítið brot neytenda geta flokkast sem fíklar.
Það er fyrir löngu orðið tímabært að taka á þeim áróðurskennda hatursboðskap sem Óli Þór og skoðanasystkyni hans bera út að öll ólögleg lyf séu það stórhættuleg að ef þau verði gerð lögleg þá muni það hafa óafturkræf og óbærileg áhrif á ungmenni þjóðarinnar. Þessi boðskapur hefur enga vigt, býður ekki upp á neinar lausnir og á ekki við nein rök að styðjast.
Hvað með börnin?
Þegar því er fleygt fram að kannabis og fleiri vímuefni verði að vera ólögleg til að verjast því að ungmenni verði þeim að bráð er vert að staldra við og ígrunda hvort eitthvert sannleiksgildi sé í þeirri staðhæfingu. Með hvaða hætti í ósköpunum ætti það að hjálpa ungmennum að hafa vímuefni ólögleg? Uppfyllir vímuefnabannið þann tilgang að takmarka framboð efnanna? Nei, þvert á móti þá hefur framboð og aðgengi fólks að þessum efnum aukist jafnt og þétt þrátt fyrir bönn og ströng viðurlög. Virkar bannið sem hvati fyrir ungmenni til þess að prófa síður að neyta efnanna? Það er einnig kolrangt og er ekki í samræmi við staðreyndir. Neysla kannabisefna meðal ungmenna í Hollandi, þar sem sala er leyfð til 18 ára og eldri, er minni en í nágrannalöndum þar sem kannabis er ólöglegt. Einnig hefur kannabisneysla meðal ungmenna í þeim fylkjum Bandaríkjanna þar sem kannabis er leyft ekki aukist, heldur frekar farið minnkandi. Önnur sterk dæmi um ávinning umbóta í vímuefnamálum eru Sviss, þar sem dauðsföll vegna ofskammts hjá sprautufíklum eru engin eftir að þar var komið á öflugu skaðaminnkunarkerfi, og Portúgal, þar sem afglæpavæðing allra vímuefna hefur gefið góða raun fyrir fíkla, gæði meðferðaúrræða, almenna neytendur, almenning og lagakerfið í heild sinni.
Þegar vímuefni eru háð regluverki eins og aldurstakmörkunum er ljóst að erfiðara verður fyrir þau sem ekki hafa náð aldri að verða sér út um efnin. Það er kerfi sem við höfum fyrir áfengi og tóbak, sem eru miklu hættulegri vímuefni heldur en kannabis, og það virkar. Kannski ekki fullkomlega en ásættanlega. Að halda því staðfastlega fram að önnur lögmál gildi um löglega sölu kannabisefna er algjör meinloka. Að kjósa þess í stað að hafa verslun kannabisefna á svörtum markaði og refsa neytendum er bæði glórulaust og ómannúðlegt.
Að hafa vímuefni ólögleg hefur ótal óþarfa hættur í för með sér sem ef til vill margir gera sér ekki grein fyrir. Þar sem efnin eru ólögleg þá hafa framleiðendur reynt að fara á svig við lögin með því að breyta framleiðsluferlinu til þess að búa til efni sem eru lögleg. Þar má til dæmis nefna gervi kannabis, eða spice, sem hefur haft verri afleiðingar í þau nokkru ár sem það hefur verið til miðað við þær þúsundir ára sem náttúrulegt kannabis hefur verið notað af mannfólki. Annað dæmi er PMMA sem er selt sem MDMA (ecstacy). Þegar safrole, sem er efni sem notað er í framleiðlu MDMA, var bannað reyndist oft auðveldara fyrir MDMA framleiðendur að nota anisolíu í staðinn fyrir safrole. Með því að nota anisolíu í stað safrole í framleiðslunni verður til efni sem heitir PMMA og er selt sem MDMA. PMMA er skaðmeira en MDMA að því leyti að það er sterkara og það tekur lengri tíma að virka. Mörg, ef ekki flest, þeirra sorglegu dauðsfalla sem rakin eru til MDMA ofskammts eru vegna PMMA, efnis sem væri ekki til ef MDMA væri löglegt. Hreint MDMA er í öllum samanburði eitt öruggasta vímuefnið sem notað er í dag; til dæmis mun öruggara en áfengi og tóbak. Svo má nefna að á ólöglegum markaði eru engar upplýsingar um vöruna, framleiðsluferlið, innihaldið, styrkleikann, hver neysluskammturinn er eða notkunarleiðbeiningar. Allt atriði sem stuðla að auknu öryggi neytandans en eru höfð að vettugi með þeim ólögum sem nú gilda um vímuefni.
Nei, markaðir ólöglegra fíkniefna vernda nákvæmlega engin ungmenni. Það að nota verndun barna og ungmenna sem rök fyrir því að viðhalda lögbanni vímuefna er ekkert nema lágkúruleg átylla fólks sem haldið er þeirri veiku og blindu siðferðiskennd að öll vímuefni séu af hinu illa og að neytendur þeirra séu upp til hópa annars flokks borgarar sem með atferli sínu afsali sér borgaralegum réttindum og virðingu. Öll vímuefni utan áfengis að sjálfsögðu. Skál í boðinu og skál fyrir Óla Þór.
Það er enginn að halda því að fram að vímuefni séu skaðlaus, heldur er verið benda á að þau eru skaðmeiri á ólöglegum markaði og með því að gera sölu og neyslu þeirra refsiverða erum við ekki að hjálpa neinum. Einnig getum við öll sammælst um að það beri eftir megni að koma í veg fyrir vímuefnaneyslu barna og unglinga, en það er bara alls ekki gert með því að hafa þau ólögleg. Einn besti árangur sem hefur orðið varðandi takmörkun á neyslu unglinga er í neyslu áfengis og tóbaks, eða þeim fíkni- og vímuefnum sem eru lögleg. Með regluverki, forvörnum og upplýsingum. Þar liggur árangurinn.
Svo er vert að hafa í huga að það kemur sá tímapunktur að ungmenni verða ekki lengur ungmenni og séu þau svo ólánsöm að vera viðriðin mikla neyslu eða sölu ólöglegra vímuefna á þeim tímapunkti þá mætir þeim kalt og óumburðarlynt kerfi lagana. Þetta eru ungmennin sem eru í mestri hættu að verða fíkniefnum að bráð og þau ungmenni sem kerfinu er ætlað að vernda. Þangað til kerfið fellur um sjálft sig og þau verða að fullorðna fólkinu sem er grimmilega refsað. Og þó ungmenni hætti að vera ungmenni í kringum 18-20 ára aldurinn þá hætta börnin okkar ekki að vera börnin okkar þó þau verði 20, 25 eða 35 ára og við ættum að hafa það í huga þegar við stöndum frammi fyrir því að skapa nýja löggjöf vímuefna sem ætti að byggja á staðreyndum, reynslu, hagkvæmni og ekki síst samkennd. Damon Barrett færir góð rök fyrir þessum vinkli hér.
David Nutt, frægur sál- og taugalyfjafræðingur, hafði að orði að “Það að taka vímuefni getur verið upplýst val, slæmt val eða, í tilviki fíkilsins, mjög þvingað val. Það er aldrei glæpur og ætti í engu tilviki að varða við refsingu.” Í málefnum vímuefna á Íslandi sem og annars staðar dugir ekkert minna en yfirhalning sem felur meðal annars í sér: afglæpavæðingu allra vímuefna, löglega sölu kannabisefna undir regluverki (sambærilegt og nú er með áfengi), öfluga starfsemi á nýtingu kannabisefna í lækningaskyni, eflingu skaðaminnkunarúrræða (líkt og Frú Ragnheiður hefur unnið að til fyrirmyndar), fjölgun í meðferðarúrræðum, heiðarlega upplýsingagjöf og öflugt forvarnarstarf.
Slíkar breytingar eru ekki síst til þess fallnar að stuðla að bættum hag barna og ungmenna sem koma til með að erfa samfélagið sem og hag ógetinna ungmenna um ókomna framtíð.
Auðvitað koma þessi og sambærileg úrræði ekki til með að leysa allan þann vanda sem er í kringum vímuefni en við getum verið gjörsamlega óhrædd við að gera róttækar breytingar því það er vart hægt að hugsa sér verra kerfi en núverandi óstjórn á svartamarkaði eiturlyfja með meðfylgjandi sóun á mannauð og fjármunum og allt saman stutt af refsingum, mannréttindabrotum, misbeitingu valds og ofbeldi.
Höfundur er doktor í líftækni og starfar við lífvísindarannsóknir við Háskóla Íslands.
Athugasemdir