Veturinn sem leið var magnaður fyrir margar sakir. Brjósta- og Beauty tips byltingarnar voru með því allra hressilegasta sem ég hef upplifað sem íslenskur femínisti og sýndu svo ekki verður um villst að konur geta svoleiðis hrist af sér fjötrana ef þær vilja. Þessi kraftur og samstaða sannfærði mig endanlega um að við eigum líka eftir að losna undan annarri skömm sem litar líf okkar flestra frá unga aldri: Skömminni yfir líkama okkar.
Það er ævafornt stef að konur séu í eðli sínu syndugar og að syndin sé bundin við hold þeirra. Allt frá dögum Evu hefur erfðasyndin verið tengd við tálkvendið og skækjuna, en í seinni tíð blasir við enn flóknari veruleiki þar sem konum er gert að vera bæði kynþokkafullar og kynlausar í senn. Við erum dæmdar fyrir að vekja losta með útliti okkar, klæðaburði og framkomu, en líka smánaðar ef við uppfyllum ekki samfélagsstaðla um kynþokkafullu konuna. Konur sem eru feitar, gamlar, fatlaðar eða með einhverjum öðrum hætti standa utan við þessa staðalmynd eru gerðar ósýnilegar og ómerkilegar. Það er akkúrat ótti við að tapa þeirri félagslegu stöðu sem fylgir réttu útliti sem er undirrót þeirrar angistar sem grípur margar konur við að eldast eða fitna. Við vitum að hvert kíló og hver hrukka þýðir skref niður á við í félagslega stiganum.
Flóknar útlitskröfur gera það að verkum að fæstar okkar lifa sáttar í eigin skinni. Jafnvel þótt við uppfyllum alla staðla á einum tímapunkti getum við ekki búist við því að halda því til lengdar. Ef sjálfsvirðing okkar og félagsleg staða er bundin við þröngt skilgreind útlitsviðmið erum við dæmdar til ýmist vanlíðunar yfir núverandi ástandi eða kvíða gagnvart framtíðinni. Merki um skömm og kvíða gagnvart eigin holdi sjást yfir allt æviskeið kvenna. Stúlkur allt niður í 5 ára hafa áhyggjur af því að vera feitar og íslenskar rannsóknir sýna að 80% fullorðinna kvenna allt fram undir áttrætt telja sig þurfa að léttast.
„Konur sem eru feitar, gamlar, fatlaðar eða með einhverjum öðrum hætti standa utan við þessa staðalmynd eru gerðar ósýnilegar og ómerkilegar.“
Hversu margar kynslóðir munu þurfa að ganga þennan veg áður en við stöðvum þessa þróun? Mig langar að við opnum augun fyrir því að hve miklu leyti okkur er innrætt skömm og minnimáttarkennd gagnvart líkama okkar, ekki bara kynferðislega, heldur að öllu leyti og að þetta sé skömm sem við verðum að skila ef við ætlum að lifa frjálsar og sterkar. Ef við viljum að dætur okkar lifi frjálsar og sterkar.
Ég vona því að næsti vetur verði líka byltingarvetur. Ég vona að í næstu byltingu tökum við okkur að fullu og öllu skilgreiningarvald yfir eigin líkama og köstum af okkur hlekkjum útlitskrafna og líkamssmánar. Mörg skref eru tekin í þá átt þetta haust. Um miðjan ágúst var haldin stór ráðstefna undir yfirskriftinni „Líkamsfrelsi“ sem var afar vel sótt og hefur sjaldan jafn mikið af áhugasömu fólki komið saman hér á landi til að ræða um líkamsmynd og aðgerðir til að laga núverandi stöðu. Annað viðamikið verkefni fer af stað nú í haust og vetur þar sem hundruðum framhaldsskólastúlkna verður boðið ókeypis líkamsmyndarnámskeið, The Body Project, til að efla líkamsmynd sína og valdeflingu gagnvart samfélagsáreitum. Næst á dagskrá er hins vegar alþjóðleg ráðstefna um holdafarsmisrétti sem verður haldin 18.-19. september á Grand Hótel í Reykjavík. Ráðstefnan er meðal þeirra viðburða sem hljóta styrk í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna enda kemur pólitík holdafarsins sterklega við stöðu kvenna. Engu að síður er þetta málefni fyrir alla. Karlar verða líka fyrir líkamssmánun og fitufordómum og hvort sem við erum feit eða grönn þá verka kraftar samfélagsins á okkur og valda vanlíðan, ótta og skömm. Ráðstefnan á erindi jafnt við fræðimenn sem almenning og vonandi geta sem flestir nýtt þetta einstaka tækifæri til að efla vitund sína um þessi málefni. Upplýsingar um skráningu og dagskrá má finna á www.stigmaconference.com.
Það er mikilvægt skref í átt að valdeflingu að afla sér upplýsinga og þekkingar. Ef við skiljum ekki óréttlætið sem við búum við höldum við að staðan sé okkur að kenna eða óumflýjanlegt lögmál sem ekki er hægt að breyta. Við höfum lengi lifað við þá hugmynd að skömm yfir líkama okkar sé okkur sjálfum að kenna. Að við köllum yfir okkur vanlíðan og niðurlægingu með því að vera vaxin á rangan hátt og það sé á okkar ábyrgð að passa inn í kökuform samfélagsins. En nú þegar eru farin að sjást merki um sprungur á kökuforminu og bara spurning um tíma hvenær það brotnar.
Athugasemdir