„Tónlistin okkar er falleg því hryggðin er fegurri gleðinni.“
Brasilíska tónskáldið Antonio Carlos Jobim, sem ofangreind orð eru höfð eftir, upplifði aldrei íslenskan vetur og þann sérstaka trega sem fylgir bjargþungu skammdegi. Ég sé ekkert fallegt við hann. Hann er rímnasöngur, samanborinn við bossa nova þeirra brasilísku. Nú er ég síst að segja að Íslendingar eigi skammdegisins vegna á einhvern hátt meira bágt en Brasilíumenn, nema síður séð. Aðeins að hérlend vetrarhryggð er ljót. Hún er þung, fáleg og sljó. Hæg og stirð. Vikivaki. En þess vegna er vorkoman svo yndisleg, afsakið orðbragðið. Sjálfum er mér skítsama um brumhnappa og gróanda – er með frjókornaofnæmi og grashatur – en uppvakning fólksins þykir mér falleg. Sérstaklega fögur séð til hliðar við þumbarahátt vetrarins. Mér þykir fallegt að sjá alltof léttklætt og sem því nemur bjartsýnt fólk hrekjast inn á kaffihús undan köldum vindi, sjá annað bjartsýnt fólk sjúga sultardropa upp í nefið hímandi utandyra með svaladrykki í fimm gráðu hita, og ekki síður fólk sem berst við að halda útbreiddum teppum á grasflötum í norðangjólu. Allt eru þetta íslensk sólarljóð. Nú vöknum við til þess að verja örstuttri sumarnefnu í að hundsa kulda og njóta birtu. Í að drekka í okkur birtuna sem veturinn er sneyddur, í að kasta bjarnarhömunum og skvettast um eins og fjárans kálfar að vori. Um þetta nenni ég ekki að vera kaldhæðinn og fjarrænn. Ég gef mig allan í þessa indælu dellu, eins og við flest hvort sem okkur líkar betur eða ver. Svona er lífið hér. Loppnir fingur og ölvarmi í kinnum. Kætin er svo falleg, svo innileg og nauðsynleg, sem lausn undan fýlu skammdegisins. Sumarið er kalt en það er samt andskotans sumar, með sól, birtu og meinalausri sjálfsblekkingu. Það er gleðiefni. Hryggð getur verið falleg jú, við Jobim sjálfan, en kátínan líka fjandinn hafi það. Leyfum okkur að kætast, þó það sé kjánalegt. Þá er mín bjartsýni uppurin fyrir árið. Þetta var allt og sumt.
Athugasemdir