Afi minn er tannlæknir. Eða, hann var tannlæknir, þangað til fyrir jól, þegar hann fór loksins á eftirlaun, 76 ára að aldri. Það að eiga afa sem var tannlæknir hafði sína kosti strax í æsku, bæði því traust mitt til tannlækna var aldrei neitt vandamál og svo fékk ég að velja mér óhemju mikið af „verðlaunum“ eftir hvern einasta tíma hjá honum.
Þegar ég varð eldri og tannheilsunni fór að hraka hafði það svo annan ótvíræðan kost: ég þurfti ekki að borga fyrir tannlæknaþjónustu. Á seinni hluta táningsáranna og þeim fyrstu tvítugsaldurs var ég bæði upptekinn við sjálfstortímingu og nokkuð viss um að ég væri ódrepandi, eins og fólk á þessum aldri er oft. Almenn tannhirða var mér því ekki ofarlega í huga.
Afleiðingarnar af þessum trassaskap voru nokkrar holur og fyllingar sem ég er enn í dag að kljást við. Afi hefur af natni og virðingu tekið að sér viðhald á þessum rotnandi tanngarði eftir bestu getu. Síðasta sumar gerðist það svo að ég var einu sinni sem oftar að bryðja Turkis Pepper brjóstsykur þegar það klofnar hreinlega hjá mér tönn, alveg ofan í kviku. Afi þurfti að slípa hana til og setja á bráðabirgðakrónu, á meðan tannholdið jafnaði sig. Nú rétt eftir áramót, aðeins nokkrum dögum eftir að afi fór á eftirlaun, gerðist það svo að tönnin gaf sig endanlega og eftir stendur skarð í kjaftinum á mér. Eyða þar sem eitt sinn var hraust og falleg tönn.
Nú þarf ég því að fara til tannlæknis, en eftir að hafa skoðað gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands þarf ég að byrja á því að opna sparnaðarreikning, eða hefja Karolina-fund söfnun, því þessi viðgerð mun hlaupa á tugum, jafnvel hundruðum þúsunda. Það eitt að skoða gjaldskrána fyllti mig kvíða fyrir þessari væntanlegu heimsókn, og hann minnkaði ekki þegar ég sá að meðhöndlun vegna tannlæknakvíða kostar 12.600 krónur.
Kæra fjölskylda, við munum ekki borða neitt í janúar og febrúar. Pabbi er að safna sér fyrir nýrri tönn.
Athugasemdir