Hrefna Hrund Pétursdóttir og Ólöf Edda Guðjónsdóttir sálfræðingar veita meðferðarþjónustu fyrir pör sem vilja auka sambandsánægju eða fá aðstoð við að gera breytingar í sambandinu. Hér deila þær með okkur nokkrum góðum ráðum.
1. Hrósa
Eitt af því mikilvægasta sem hamingjusöm pör gera er að hrósa hvort öðru. Góð regla er fimm jákvæð samskipti á móti einum neikvæðum til þess að eiga í góðu sambandi. Hvernig líður þér þegar þú færð hrós? Vel, ekki satt? Hrós er okkur mikilvægt og líka fyrir sambandið. Ekki þarf aðeins að hrósa fyrir stóra viðburði heldur er líka mikilvægt að hrósa fyrir hversdagslega hluti. Þú kemur þreytt heim úr vinnunni og kærasti þinn er búinn að taka til í íbúðinni og elda kvöldmatinn. Þú ert rosalega fegin að núna getur þú slakað á eftir vinnudaginn. Í þessum aðstæðum er mikilvægt að grípa tækifærið og gefa á einhvern hátt til kynna að þú sért þakklát fyrir það sem kærastinn þinn gerði. Líkurnar á því að hann geri það aftur munu aukast og hver vill ekki koma oftar í hreina íbúð?
2. Skapa sér hefðir
Ákveðnar hefðir sem pör búa til saman geta styrkt sambandið til muna. Sumir ákveða að laugardagskvöld séu alltaf stefnumótakvöld. Aðrir geta skapað sér þá hefð að kyssast alltaf hæ og bæ eða bara að borða kvöldmat saman. Notið hugmyndaflugið, það er engin ein regla í þessu og hugsið út fyrir kassann.
3. Hlusta
Eitt af algengustu vandamálum í samböndum er að fólk hlustar ekki á hvort annað. Yfirleitt vill fólk koma sínum upplýsingum á framfæri og gefur sér ekki tíma til að hlusta á það sem makinn er að segja. Við leggjum því mikla áherslu á að pör æfi sig í að hlusta, sýna stuðning og vera til staðar. Hlustaðu, jafnvel þó að það sé um eitthvað sem þér finnst leiðinlegt, eins og tal um Manchester United eða Glæstar vonir. Hamingjusöm pör eru frábær í að hlusta.
4. Eyða tíma saman
Það er ótrúlega margt sem við þurfum að eyða tíma okkar í, vinnu, heimili, barnauppeldi, áhugamál og svo framvegis. Þess vegna er mikilvægt að ákveða fasta tíma sem þið eigið saman. Það þarf að setja sambandið í forgang og skipuleggja tíma fyrir sambandið. Sumum finnst kannski kjánalegt að skipuleggja tíma fyrir sambandið en með því að gera það ekki þá vill það oft verða þannig að við tökum aðra hluti framyfir sambandið. Ef þið eruð mjög upptekin þá gæti verið gott að skipuleggja allavega hálftíma á dag þar sem þið getið spjallað um daginn eða taka frá eitt kvöld í viku.
5. Fíflast
Hafa gaman saman, hlæja, segja brandara, kitla og svo framvegis. Allt þetta skapar jákvætt andrúmsloft og hamingjusöm pör njóta þess að vera saman. Pör sem hlæja saman standa saman.
6. Stunda kynlíf
Við sýnum væntumþykju, hlýju og nánd í kynlífi. Hamingjusöm pör stunda ekki kynlíf ákveðið oft í viku. Það sem skiptir mestu máli er að geta sett sig í spor maka síns og finna ákveðið jafnvægi. Það er munur á kynþörf kynjanna vegna ólíkrar hormónastarfsemi og því eru karlmenn yfirleitt með meiri kynhvöt en konur og vilja því gjarnan stunda kynlíf oftar en konur. Hamingjusöm pör átta sig á þessum mun og reyna að mæta þörfum hvors annars.
7. Tala saman
Tala saman, tala saman, TALA SAMAN. Það skiptir ekki máli hversu náin þú ert maka þínum, þú verður að segja af hverju þér líður illa þegar eitthvað hefur komið upp á. Maki þinn les ekki hugsanir! Pör sem passa upp á að eiga í reglulegum samskiptum eru hamingjusamari. Daglegu samskiptin um það sem er að gerast í lífi okkar er það sem skiptir máli. Með því að gefa sér tíma til að tala saman þá kynnist parið betur, sem hjálpar til þegar ágreiningur kemur upp. Þá hafa þau betri skilning á hvort öðru. Það eru meiri líkur á því að parið geti mætt þörfum hvors annars ef þau þekkjast vel. Það þarf ekki að taka frá meira en 20 mínútur daglega til að spjalla saman svo það hafi jákvæð áhrif á sambandið. Hvernig var dagurinn hjá þér? Samskipti efla vináttu sem er grundvöllur góðra sambanda.
8. Passa upp á litlu hlutina
Það eru litlu hlutirnir dagsdaglega sem fá fólk til þess að finna fyrir ást og umhyggju. Ekki gleyma litlu hlutunum, af því að þeir skipta máli, þó þér gæti fundist þeir vera ómerkilegir. Keyptu uppáhalds ís maka þíns þegar þú ferð í búðina, gefðu axlanudd þegar þið eruð að horfa á sjónvarpið eða farðu út með ruslið. Með því að létta undir eða gleðja maka okkar þá erum við að styrkja ástina í sambandinu. Eitt krúttlegt dæmi um að nýta sér litlu hlutina er þegar eiginmaður býr til te handa eiginkonunni sinni og finnur tepoka sem er með miða sem á stendur „remember we belong together“ og færir konunni sinni.
9. Snertast
Snerting færir okkur nær hvert öðru. Hvort sem þið eigið auðvelt með að sýna væntumþykju eða ekki, reynið að auka snertingu eins og til dæmis með kossi á ennið, löngum kossi, haldast í hendur eða strjúka bakið. Við hvetjum ykkur til að prófa.
10. Halda upp á sambandið
Hvort sem það er afmæli, stöðuhækkun, að ljúka námi eða aðrir persónulegir sigrar, haldið upp á það. Það sama gildir um sambandið, haldið upp á viðburði tengda því. Hvort sem það er sambandsafmæli, konudagurinn eða bóndadagurinn. Það skiptir ekki máli hvernig þið haldið upp á það, hvort sem það er með því að fara út að borða eða horfa á bíómynd saman heima. Kostnaður eða tilstand skiptir ekki máli, heldur það að fagna sambandinu. Sambandið ykkar er mikilvægt.
Athugasemdir