Við erum að móta framtíðina. Við vitum ekki hvernig hún verður, en við getum ákveðið að beina orku okkar og peningum núna í valdar áherslur til að bæta hana. Við getum fjárfest.
Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir næstu fimm ár er ákveðið að „enn munu brýn og oft hagkvæm verkefni sitja á hakanum“. Vegna þess að við viljum „greiða niður lán fljótt“ og „sporna við þenslu í hagkerfinu“. Á sama tíma eru skattar lækkaðir. Afleiðingin er meðal annars að rektor Háskóla Íslands lýsir miklum vonbrigðum, því við munum ekki ná meðaltali OECD-ríkja í fjárframlagi á hvern nemanda, hvað þá stefna á að vera meira en miðlungs.
Fjárfesting fyrir þeim
Þegar forsætisráðherrann okkar talar um að það þurfi að auka fjárfestingu, er hann yfirleitt að meina þegar vogunarsjóðir í skattaskjóli kaupa bankann okkar sem heldur utan um húsnæðislánin okkar og yfirdráttinn til þess að hámarka hraðar arðgreiðslur af vöxtunum sem við borgum út úr landi. Hann er líka að tala um verksmiðju United Silicon við íbúðabyggðina í Keflavík, sem fékk afslátt af alls kyns sköttum, og ívilnaða verksmiðju Thorsil í sama bæ, sem ættingjar hans eiga að stórum hluta. Hann meinar fjárfestingu eins og hann stundaði með fléttunum þegar hann var alþingismaður og bissnessmaður á sama tíma, sat í nefndum þingsins og stjórnum fyrirtækja, vegna hverra þarf að afskrifa 130 milljarða króna af skuldum sem fást ekki greiddar.
En hann er síður að tala um þegar við fjárfestum í heilsu fólks, velferð, náttúruvernd, innviðum og menntun, fjárfestingu sem skilar heildrænum arði fyrir samfélagið okkar til framtíðar, vegna þess að hann fylgir hugmyndafræði sem flokkar slíkt sem hreina útgjaldaliði.
Fjárfesting sem skilar sameiginlegum arði
Fjárfesting í fólki snýst ekki um að fólk sé byrði, eins og frjálshyggjan hefur skilgreint. Þetta er ekki gæluverkefni eða mjúk mál eins og þau eru flokkuð af gömlu, einfölduðu hagfræði milljóna, tonna og megawatta.
Hér eru nokkur dæmi. Miðað við reynslu erlendis er kostnaðurinn af ofbeldi á Íslandi á bilinu hálfur milljarður til 31 milljarðs króna á ári. Engu að síður fjárfestum við aðeins í einum sálfræðingi í betrun 180 fanga, eins og Stundin fjallaði um í grein um úrræðaleysi ofbeldisfanga. Þá er ótalinn kostnaðurinn við glæpi í heild sinni og kostnað við endurkomu fólks í fangelsi, en hver fangi kostar 7 milljónir króna á ári og því er mikilvægt að fyrirbyggja glæpi og afleiðingar þeirra bæði fyrir þolendur og gerendur.
Samkvæmt gömlu hagfræði stjórnmálamanna borgar sig að lágmarka ríkisumsvif og hafa sem fæsta sálfræðinga að störfum við betrun fanga.
Áætlað er að kostnaður samfélagsins við að gera ekkert fyrir hóp foreldra sem glíma við geðraskanir í kjölfar fæðingar sé um 7 milljarðar króna á ári, meðal annars vegna áhrifa sem börnin geta orðið fyrir og mótast af. 230 milljónir króna myndi hins vegar kosta að byggja upp þjónustu fyrir hópinn, eins og Stundin fjallaði um í febrúar.
Við erum með kennara og hjúkrunarfræðinga sem geta ekki lifað dæmigerðu lífi eftir að þeir hefja störf í kjölfar sérmenntunar. Við erum markvisst að rýra og tæma fjárfestingarstéttirnar, stéttirnar sem byggja upp og viðhalda mannauðnum, vegna þess að við flokkum þær sem útgjaldastéttir.
Rangt bókhald ríkisins
En ef bókhald ríkisins endurspeglaði raunveruleikann kæmi fjárfesting í fólki fram sem eign. Gamla hagfræðin horfir hins vegar fram hjá samfélagslegum raunverðmætum.
Það skapar verðmæti að fyrirbyggja andlegan eða líkamlegan skaða mannfjöldans og byggja upp vel virk börn, sem aftur ala af sér fleiri börn sem lifa drífandi eða í samvirkni við samfélagið. Enda hefur sýnt sig á langflesta mælikvarða farsældar að norræn samfélög sem fjárfesta í fólki eru þau best heppnuðu í heimi.
Líklega er ekki tilviljun að við erum ekki í flokki með samanburðarlöndunum okkar í niðurstöðum á mælingu á mannauði, human capital index. Á meðan hin Norðurlöndin eru í fjórum af efstu sjö sætunum er Ísland í 20. sæti, nokkuð á eftir Eistlandi en einu sæti á undan Litháen.
Tilfallandi auðlindir munu ekki bjarga okkur frá því að týna lífsgæðum ef ekki er gætt að því að við sjálf séum sem best undirbyggð samfélagslega, sálfræðilega, líkamlega og vitsmunalega. Rússland, Sádi-Arabía, Venesúela, Írak og Íran eru ekki bestu lönd heims til að búa í, þótt þau séu meðal topp tíu mestu auðlindaríkja heims.
Glataða tækifærið
Nú er sagt að það standi yfir mesta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar. Þeir selja okkur að þeir hafi skapað hagvöxtinn, en ástæðan er ferðamenn. Gjaldeyristekjur af ferðamönnum eru áætlaðar 560 milljarðar króna á árinu, sem er 45 prósent af öllum gjaldeyristekjum Íslands. Við fjárfestum hins vegar 610 milljónum króna með framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem jafngildir rétt rúmlega 0,1 prósent af veltunni.
Um daginn tilkynnti enn einn landeigandi náttúruperlu að hann ætli að rukka fólk fyrir að sjá hana. Framvegis muni kosta 400 krónur að ganga á Helgafell við Stykkishólm, að sögn til að borga fyrir salerni og starfsmann, sem rukkar og fylgist með. Miðað við tölur landeigandans mun það skila honum 120 þúsund krónum á dag í tekjur. Ástæðan sem hann gefur upp er að framkvæmdastjóður ferðamannastaða hafnaði umsóknum hans um uppbyggingu. Þjóðgarðsvörðurinn á Þingvöllum segir að sjóðurinn sé „fáránlegur“ og „skelfilegt fyrirbrigði“.
Rök þeirra gegn fjárfestingu
Eitthvað er skakkt. Við höfum verið með opinbera fjárfestingu með minnsta móti, einu prósentustigi lægra hlutfall af landsframleiðslu en síðustu 15 ár að meðaltali, þrátt fyrir yfirlýst lengsta hagvaxtarskeið Íslandssögunnar og bráðaþörf til að byggja upp og vernda það sem skapar okkur arð. Og þegar það mun koma niðursveifla, hefur Bjarni Benediktsson innleitt reglu sem fyrirskipar niðurskurð í opinberum útgjöldum, öfugt við sveiflujöfnunarhlutverk ríkissjóðs.
En þeir eru með rök fyrir þessari stefnu, sem hljóma góð og gild vegna þess að tungumálið hefur verið aðlagað að þeim. Bjarni og Benedikt vilja báðir halda niðri opinberri fjárfestingu til að borga niður allar skuldir ríkissjóðs, og Óttarr Proppé fylgir með af fagmennsku og heiðarleika hins bjartsýna samræðustjórnmálamanns.
Önnur helstu rök þeirra gegn því að fjárfesta sameiginlega í framtíðinni er að hún skapi þenslu. Í skilgreiningu forsætisráðherrans okkar er gott að GAMMA fjárfesti í húsnæði, til að leigja það hjúkrunarfræðingum í hagnaðarskyni, en vont að hið opinbera sjái til þess að nægt framboð sé af húsnæði, til dæmis vegna þess að einstaklingur sem kýs að verða kennari hefur ekki efni á húsnæði á kennaralaunum.
Það er verið að vara við þenslu, að það sé of mikið líf í efnahagslífinu. Þess vegna þurfi ríkið að halda að sér höndum og ekki fjárfesta of mikið. Auðvitað verður líka þensla ef GAMMA fær lán til þess að breikka vegi við höfuðborgina og rukka fólk til að græða, rétt eins og ef ríkið fær lán til þess á lægri vöxtum.
Það verður líka þensla þegar eigendur náttúruperlanna ráða til sín tollverði til að rukka fólk á ferðalagi. Jafnvel meiri en þegar ríkið ræður fleiri landverði eða leggur fé í uppbyggingu göngustíga og aðbúnaðar.
En ef þenslan væri raunverulega fyrirstaðan væri fyrsta skrefið að hækka skatta til að minnka hana, en ekki að lækka virðisaukaskatt úr 24 prósent í 22,5 prósent, því það skapar þenslu.
Vildi loka 30 stofnunum
Við erum samt sammála um takmarkið. Verkefni stjórnmálamanna í einfölduðu máli er að gæta að sameiginlegum hag okkar til framtíðar. Leiðirnar hafa í grófustu dráttum verið tvær: Að lágmarka umsvif ríkisins eða auka þau. Þessi grófa skilgreining tekur ekki til þess hvort það sé rétt að lágmarka ákveðin umsvif ríkisins og jafnvel auka önnur umsvif þess, og er því marklaus í reynd.
Hugmyndafræði forsætisráðherrans okkar í upphafi stjórnmálaferils hans var hins vegar einföld. Það átti að minnka umsvif ríkisins.
Fyrsta eigið þingmál Bjarna Benediktssonar á Alþingi var tillaga um að Alþingi ályktaði að ríkisstofnunum yrði fækkað um þrjátíu. Ekki kom fram hvaða stofnanir eða starfsemi ætti að leggja niður, heldur var tilgangurinn einfaldlega að „einfalda ríkisrekstur“ til að auka hagkvæmni ríkisins. „Hagkvæmni“ er annað orð sem var yfirtekið, eins og „fjárfesting“. Fyrsta lagafrumvarp hans snerist síðan um að takmarka aðkomu Samkeppniseftirlitsins að samruna fyrirtækja.
Ríkisstofnanir snúast fyrst og fremst um að veita borgurunum þjónustu og veita eftirlit með því að starfsemi brjóti ekki gegn almannahag. Til dæmis á Fjármálaeftirlitið að gæta þess að bankar brenglist ekki, Umhverfisstofnun að passa að verksmiðjur dæli ekki eiturefnum í andrúmsloft íbúabyggðar og Matvælastofnun á meðal annars að tryggja að ekki sé farið illa með dýr og neytendur blekktir.
Mögulega vildi Bjarni ekki draga úr þessari starfsemi, en hann tilgreindi ekki neina stofnun sem hann vildi leggja niður, hvað þá þrjátíu, heldur bara að það ætti að leggja niður.
Einfalda til að einfalda
Ríkisstjórn Bjarna vill koma á „einfaldara reglugerða- og skattaumhverfi“, líkt og Viðreisn orðaði það fyrir kosningar. Bjarni og Benedikt, og ríkisstjórnin í heild, fylgja eftir stefnu sem snýst um að lágmarka fjárfestingu ríkisins í sameiginlegum hagsmunamálum. Hún lítur á forsendu hennar sem ófrelsi, eins og kemur fram í fjármálaáætluninni. „Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja milli skammtímahagsmuna og langtímahagsmuna, uppbyggingar og sparnaðar, skattlagningar og frelsis.“
„Stjórnvöld bera þá ábyrgð að velja milli ... skattlagningar og frelsis.“
Þegar skattlagning og frelsi eru andstæður verðum við að líta svo á að eftirfarandi stafi af ófrelsi: Sundlaugarnar, hitaveitan, leikskólar, vegir án tollahliða, náttúruperlur án gjaldhliðs, heilbrigðiskerfi án greiðsluþátttöku, örorkubætur, atvinnuleysisbætur, gjaldfrjálsir háskólar, gjaldfrjáls menntun fyrir börn og allur annar stuðningur ríkisins við þá sem þurfa sérstaklega á því að halda.
Því þeir tóku líka frelsið. Þegar þeir tala um „frelsi“ meina þeir frelsi fyrirtækja, en ekki frelsi þeirra sem fæðast til að fullnýta og þróa hæfileika sína og verða besta útgáfan af sjálfum sér.
Endurheimtin
Það er kominn tími til að endurheimta tungumálið og endurmeta stjórnmálin. Skattkerfi á ekki að vera einfalt, heldur flókið til að aðlaga taktískt flókinn veruleika að bestu niðurstöðunni. Þensla verður þegar skattar eru lækkaðir, þegar GAMMA leggur vegi og rukkað er á ferðamannastaði, en ekki bara þegar ríkið byggir upp innviði til að fyrirbyggja skaða og fjárfesta í framtíð. Hagkvæmni er að tryggja skaðleysi og heilbrigði fólksins í landinu, og fyrirbyggja að sérhagsmunir valdi almennri óhagkvæmni. Hagvöxtur er þegar hagur okkar og farsæld aukast, ekki bara þegar útfluttum bræddum áltonnum fjölgar hjá skattlausu stórfyrirtæki. Og fjárfesting er útgjöld til heilbrigðis-, mennta- og félagsmála sem skapar eign í bókhaldi okkar til framtíðar.
Athugasemdir