Salan á frelsi einstaklingsins er best heppnaða markaðsherferð síðustu áratuga.
Á Íslandi, eins og í Bandaríkjunum, hefur „frelsi einstaklingsins“ verið skilgreint af hægrisinnuðum frjálshyggjumönnum út frá því að með sem lægstum sköttum verði einstaklingarnir sem frjálsastir.
Þau sem selja „frelsi einstaklingsins“ hafa fyrst og fremst beitt sér gegn skattlagningu sem gengur út á að jafna kjör fólks. Í mismiklum mæli hafa þau beitt sér gegn reglum og eftirliti sem vernda frelsi einstaklingana fyrir áhrifum stórfyrirtækja.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið sér það hlutverk á Íslandi að innleiða lága fyrirtækja- og fjármagnskatta á eigendur fyrirtækja, og lækka hátekjuskatta á stjórnendur þeirra, á sama tíma og launþegar greiða mun hærri skatta en fjármagnseigendur. Flokkurinn lagði sig meira að segja sérstaklega fram um að gera fyrirtækjum kleift að koma sér í aðstöðu til að forðast skattgreiðslur með hjálp skattaskjóla, á meðan hinn dæmigerði einstaklingur hefur ekki haft það frelsi. Fyrir utan félagslega frjálslyndar áherslur, sem nánast allir flokkar eru fylgjandi á Íslandi, hefur Sjálfstæðisflokkurinn mest barist fyrir frelsi stjórnenda og eigenda af íslenskum stjórnmálaflokkum.
Skattlagning og frelsi
Þjóðernis- og frjálshyggjusinnaði forsetinn Donald Trump hefur ekki aðeins selt kjósendum sínum frelsi, heldur líka að kjör hans færi valdið til fólksins. „Við erum að færa valdið frá Washington D.C. aftur til ykkar, bandarísku þjóðarinnar,“ sagði hann í vígsluræðu sinni.
Stefna Trumps gengur hins vegar út á að lækka skatta á þá tekjuhæstu og fyrirtæki. Þau 1 prósent tekjuhæstu eiga samkvæmt því að fá 13,5 prósent tekjuaukningu við skattabreytingarnar, á meðan skattalækkun á 80 prósent tekjulægri einstaklingana er frá 0,8 til 2,2 prósent. Hæstu skattar á fyrirtæki fara úr 35 prósent niður í 15 prósent. Stórauknar skuldir ríkisins vegna skattalækkananna á þá ríkustu munu síðan leiða til skertrar almannaþjónustu í þágu þeirra sem þarfnast hennar.
Þá hefur hann nú þegar gefið út forsetatilskipun um fækkun á reglum og minnkun á eftirliti sem höfðu þann tilgang að koma í veg fyrir að fyrirtæki skaði og skerði almannagæði, eins og umhverfið.
Peningar sem frelsi
Skilgreiningin á frelsi á Vesturlöndum kemur að hluta frá John Stuart Mill í bók hans Frelsið, þar sem hann leggur út frá frelsi hvers og eins til að gera það sem hann vill, án þess að skaða aðra.
Peningar eru forsenda virks eða jákvæðs frelsis, frelsis sem snýst ekki bara um að forðast inngrip og vald annarra yfir þér, heldur leyfa þér að athafna þig og upplifa hluti. Í landi frjálshyggju er sífellt minna aðgengilegt án greiðslu, bæði er minnkað almannarýmið og almannaþjónusta.
Raunveruleg barátta fyrir frelsi einstaklingsins, eins og við skiljum hugtakið einstakling og vídd hans, gengur út á frelsi launþegans, þar sem yfirgnæfandi hluti einstaklinga er í þeirri hagfræðilegu stöðu. „Launþegi“ er hins vegar orð sem gefur til kynna að viðkomandi sé þiggjandi í samfélagslegu samhengi, fremur en skapandi og forsenda auðs. Skattkerfið, og meira að segja tungumálið, er nefnilega raunverulega ekki sett upp fyrir einstaklinginn, heldur eigandann. Vinnuveitandi gæti hins vegar rétt eins kallast vinnuþegi.
Áherslan er ekki á frelsi einstaklingsins heldur frelsi eigandans. Og það fellur óþægilega að þeirri áherslu að nýr félagsmálaráðherra Íslands, sem sér um ráðstafanir vegna þjónustu við þá verst settu í samfélaginu, kom inn í starfið beint úr stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnurekenda.
Samþjöppun fjármagns sem ofríki
Hugmyndafræði hægri- og frjálshyggjusinnaðra stjórnmálamanna horfir aðallega á eina tegund ofríkis og helsis, þá sem hlýst af ríkisvaldinu, en ekki þá frelsisskerðingu sem hinn venjulegi einstaklingur hlýtur af samþjöppun fjármagns á fárra hendur.
Lög um styttingu vinnuvikunnar er skaðlegt inngrip ríkisvaldsins, að mati dæmigerðra frjálshyggjumanna, en það veitir engu að síður einstaklingnum stóraukið frelsi í lífi þeirra, þótt það takmarki mögulega gróða fyrirtækjaeigenda og mögulega framleiðsluaukningu.
Ferðafrelsi hversdagsins
Eitt af helstu baráttumálum frjálshyggjufólks á Íslandi, eins og Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra og margra annarra en ekki allra meðlima Sjálfstæðisflokksins, er réttur einkabílsins, á þeirri forsendu að hann sé órjúfanlegur hluti af frelsi einstaklingsins. Fólk þurfi frelsi til að keyra og leggja og því þurfi að tryggja umferðarmannvirki, víðfeðm bílastæði og lága skatta á bensín.
En fyrir grunneinstaklinginn, að frádeginni bifreið, er bílamenning stórvægileg frelsisskerðing. Tæplega helmingur borgarinnar hefur verið lagður undir umferðarmannvirki. Ferðafrelsi einstaklings, að frádregnum bíl, er stórlega skert og heilsa hans sköðuð með bílanotkun. Áætlað er að 35 til 70 manns deyi „ótímabærum dauða“ á hverju ári á Íslandi vegna loftmengunar af völdum bíla. Mun fleiri eru taldir deyja af völdum loftmengunar af umferðinni heldur en í umferðarslysum.
Þá er ótalið frelsið til að fara um búsetusvæði sitt án truflandi umferðarhávaða, slysahættu og útblásturs. Fólk sem býr nálægt umferðaræðum lifir mun skemur en fólk sem lifir fjær þeim, er líklegra til að glíma við elliglöp, fá heilablóðfall og svo framvegis. Suma daga í Reykjavík er fólki ráðlagt að hreyfa sig ekki utandyra vegna skaða af mengun.
Valfrelsi og skaðvaldar
Andstaða gegn skattlagningu byggir á því að einstaklingurinn geti ekki valið hvort hann leggi til almannaþjónustunnar eða ekki. Hann gæti líka kosið að nota ekki þjónustuna, sem þýddi að skattlagningin væri honum í óhag.
En sá sem velur að eiga ekki bíl, eða hefur ekki efni á honum, verður hins vegar fyrir skaða af völdum þeirra sem velja að nota bíla óhóflega.
Viðkomandi þarf að ferðast mun lengri vegalengdir í hversdagsumhverfi sínu vegna umfangs umferðarmannvirkja í byggðinni sem reist eru með almannafé.
Opinber fjárfesting í almenningssamgöngum, sem frjálshyggja er gjarnan andsnúin, eykur hins vegar frelsi einstaklinga til að ferðast án þess að greiða fyrir það háu verði með vinnuframlagi. Hún takmarkar verulega plássið sem umferðin leggur undir sig, víðfeðmi byggðar, mengun og kostnað einstaklinga.
Hjólastígar, sem eru eitur í beinum margra bílfrelsissinna, eins og sumra meðlima Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurborg, gera fólki auðveldara að ferðast með 9.000 króna kostnaði á ári í stað tæplega milljón króna kostnaðar, samkvæmt mati í skýrslu borgarinnar um hjólreiðar. Það tekur þrjá mánuði að vinna fyrir bílakostnaðinum á 500 þúsund króna tekjum á mánuði. Það jafngildir rúmlega 500 klukkustundum af eftirgjöf einstaklingsins á frelsi sínu í hendur atvinnurekanda á ári hverju. Þar sem almenningssamgöngur eru mun hagkvæmari kostur fyrir heildina gætu einstaklingar um allt samfélagið með þessum hætti fengið aukið frelsi til að verja tíma sínum með þeim hætti sem þeir veldu sjálfir.
Misskipting skerðir frelsi
Vitað er að misskipting, sem orsakast af skattkerfi í þágu þeirra ríkustu, veldur aukinni glæpatíðni. Í landi hinna frjálsu, Bandaríkjunum, eru fleiri fangar en í nokkru öðru ríki og næsthæst hlutfall fanga af íbúafjölda. Fylgni milli misskiptingar í samfélagi og vantrausts milli fólks er svo sterk að samhliða heilbrigðri skynsemi er varla hægt að efast um að misskipting sé orsakavaldur vantrausts.
Frelsi venjulegs einstaklings er tryggt með því að hann búi að nægilegu öryggisneti, svo hann þurfi ekki að óttast um hvert skref, sé verndaður fyrir valdi eigenda, hljóti menntun til að fullnýta möguleika sína, fái upplýsingar sem hann þarf til að taka ákvarðanir og hafi tækifæri til að lifa í heimi sem lágmarkar hindranir og mengun.
Athugasemdir