Framsóknarflokkurinn fékk 9,5 milljónir króna í styrki frá lögaðilum í fyrra og komu stærstu upphæðirnar frá fyrirtækjum í sjávarútvegi og laxeldi.
Í ársreikningi Framsóknarflokksins vegna 2018, sem Ríkisendurskoðun birti í dag, kemur fram að flokkurinn hafi tapað 2 milljónum króna á árinu. Eigið fé flokksins er neikvætt um 56 milljónir króna og skuldir hans tæpar 240 milljónir króna.
Útgerðarfélögin Skinney-Þinganes, Eskja, Ísfélag Vestmannaeyja, Síldarvinnslan og Rammi styrktu öll flokkinn um hámarksupphæð, 400 þúsund krónur. Þá voru Samherji, Loðnuvinnslan, Hraðfrystihúsið - Gunnvör og Hvalur hf. einnig meðal styrktaraðila. Arnarlax og Laxar - fiskeldi styrktu einnig flokkinn um 400 þúsund krónur hvort.
Sælgætisframleiðandinn Góa - Linda, heildverslunin Mata, Kjarnafæði, Kaupfélag Skagfirðinga, Steypustöðin, Tak-Malbik og Fjárfesting fasteignasala styrktu einnig flokkinn um háar upphæðir.
Félagið Kaupbréf ehf. styrkti flokkinn um 350 þúsund krónur. Félagið er alfarið í eigu Hrólfs Ölvissonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins, sem sagði af sér í kjölfar umfjöllunar um Panamaskjölin. Hrólfur átti félagið Chamile Marketing á Tortóla í Bresku Jómfrúareyjunum sem panamíska lögfræðistofan Mossack Fonseca stofnaði og hélt utan um. Hrólfur hefur verið virkur í viðskiptalífinu og var félagið notað til að fela kaup íslenskra félaga hans í danska fyrirtækinu Scancore ApS, samkvæmt umfjöllun Kastljóss.
Félagið Hvanná ehf. í eigu Finns Ingólfssonar, fjárfestis og fyrrverandi ráðherra og þingmanns Framsóknarflokksins, styrkti flokkinn um 200 þúsund krónur.
Loks fékk flokkurinn 60.000 króna framlag frá Norðurorku hf. sem houm varð skylt að endurgreiða. „Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 162/2006 er stjórnmálasamtökum óheimilt að veita viðtöku framlögum frá fyrirtækjum í meirihlutaeigu ríkis eða sveitarfélaga,“ segir í athugasemd Ríkisendurskoðunar. „Norðurorka hf. er í eigu Akureyrarbæjar og fleiri sveitarfélaga. Framsóknarflokkurinn endurgreiddi framangreindan styrk á árinu 2019 og hefur Ríkisendurskoðun fengið staðfestingu þess efnis.“
Athugasemdir