Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. „Var það mat ráðherra, að Páll Magnússon væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu næstu fimm árin og leiða það umbótastarf sem er í farvatninu,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Páll hefur lengi verið virkur í starfi Framsóknarflokksins, flokknum sem Lilja er þingmaður fyrir og varaformaður í. Á árunum 1990-1998 var hann varabæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður frá 1999 til 2007. Hann var aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fyrst Finns Ingólfssonar og síðar Valgerðar Sverrisdóttur, um sjö ára skeið. Árið 2009 laut hann í lægra haldi fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í formannskosningu í flokknum. Loks var bróðir hans, Árni Magnússon, félagsmálaráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.
Páll er skipaður til fimm ára frá og með 1. desember. Hann er með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann er einnig með BA-gráðu í guðfræði frá sama skóla. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ. Páll sat í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2007 til 2011, þar af sem formaður frá 2007 til 2008, var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. frá 2003 til 2008. Hann var stjórnarformaður Fjárfestingastofu Íslands frá 1999 til 2006 og á sama tímabili varamaður í stjórn Norræna fjárfestingabankans (NIB).
„Þrettán sóttu um embættið og mat hæfnisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna því,“ segir í tilkynningunni. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal, þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda.“
Athugasemdir