Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur sent bréf á Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og greint frá samskiptum starfsmanns Seðlabanka Íslands við fréttamann Ríkisútvarpsins undir þeim formerkjum að hugsanlega hafi starfsmaðurinn eða annar starfsmaður brotið lög með því að veita fréttamanni upplýsingar.
Aðdragandi málsins er að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefur kvartað undan stjórnvaldssekt Seðlabankans sem lögð var á Samherja vegna meintra brota á gjaldeyrisviðskiptum með undirverðlagningu á fiski, sem rannsökuð voru með húsleit árið 2012. Þorsteinn hefur kært fimm starfsmenn Seðlabankans og heitið því að koma Má Guðmundssyni, fyrrverandi seðlabankastjóra, í fangelsi, eftir að stjórnvaldssekt bankans gegn Samherja var dæmd ólögmæt. Einn þessara starfsmanna er Ingibjörg Guðbjartsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri gjaldeyriseftirlits bankans, sem átti í samskiptum við fréttamann Ríkisútvarpsins og fékk upplýsingar frá honum. Fram kemur að engar trúnaðarupplýsingar hafi borist frá starfsmanninum til fréttamannsins í samskiptunum sem rannsökuð voru.
Forsætisráðherra rannsakaði málið
Samkvæmt umfjöllun Stöðvar 2 segir Katrín í bréfi sínu til lögreglunnar að háttsemin, að veita fjölmiðli upplýsingar um húsleit, „kunni að fela í sér refsivert brot“. Katrín óskaði sjálf upplýsinga frá Seðlabankanum um málið og fékk svör í apríl. Hún svaraði síðar bréfinu í september. Samkvæmt frétt Mbl.is hefur Morgunblaðið bréf Seðlabankans til forsætisráðherra 18. ágúst síðastliðinn undir höndum. Þá hefur Stöð 2 undir höndum bréf Katrínar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Vitnað er í bréfið í frétt Vísis.is: „Þá kemur fram í bréfinu að áður hafi komið fram að gjaldeyriseftirlitið hafi verið í sambandi við fréttamann RÚV vegna upplýsinga sem fréttamaðurinn veitti því. Samskiptin virðist hafa tengst því og í engum póstanna séu trúnaðarupplýsingar sendar fréttamanninum. Í einum póstinum sem sendur var daginn fyrir húsleitina virðist sem fréttamaðurinn hafi haft upplýsingar um húsleitina. Ekkert svar við póstinum sé að finna í pósthólfi framkvæmdastjórans.“
Bankinn dæmdur til að veita aðrar upplýsingar
Þvert gegn grunsemdum forsætisráðherra um að starfsmaður Seðlabankans hafi brotið lög með samskiptum við fréttamann var Seðlabanki Íslands nýlega talinn hafa brotið gegn lögum með því að veita ekki upplýsingar til fréttamanns.
Seðlabankinn var í síðustu viku dæmdur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til þess að afhenda blaðamanni Fréttablaðsins samning sem bankinn gerði við sama starfsmann og átti í tölvupóstsamskiptum við fréttamann, Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, vegna styrks sem bankinn veitti henni til að stunda nám við Harvard-háskóla.
Vill seðlabankastjórann í fangelsi
Hæstiréttur Íslands úrskurðaði í nóvember síðastliðnum að Seðlabankinn hefði ekki haft þá heimild sem bankinn taldi sig hafa, til þess að leggja stjórnvaldssekt á Samherja vegna gjaldeyrisviðskipta. Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sagði í tilefni dómsins ítrekað að Már Guðmundsson færi í fangelsi vegna málsins. „Það er að segja að ég held að það sé nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi. Núna þarf bankaráð að bera ábyrgð. Auðvitað á Már Guðmundsson að fara úr bankanum. Mér fyndist það ótrúlegt ef að fólk ætli að sitja uppi með mann til að stjórna Seðlabanka Íslands sem er á leið í fangelsi.“
Athugasemdir