Nýverið varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að vera við tónlistarhátíðina Unsound í borginni Kraká í Póllandi. Einn af viðburðum hátíðarinnar, sem þekkt er fyrir framúrstefnulega og tilraunakennda tónleika, var flutningur Hildar Guðnadóttur á hljóðrás sinni úr sjónvarpsþáttunum Chernobyl sem hún fékk Emmy-verðlaun fyrir í ár.
Á sunnudagseftirmiðdegi söfnuðust misferskir hátíðargestir fyrir utan verksmiðju rétt við miðborgina. Rýmið var áður notað af fyrirtækinu Telkom-Telos, sem framleiðir óhefðbundin símtæki til notkunar á lestarteinum, í herstöðvum og í námum. Annar af viðburðum hátíðarinnar hafði einmitt átt sér stað djúpt í Wieliczka-saltnámunum rétt fyrir utan borgina. Þær stóðu undir stórum hluta af saltframleiðslu Evrópu frá 13. öld þar til saltverð hrundi á tíunda áratug síðustu aldar.
Inni í hrárri verksmiðjunni hafði verið komið fyrir litlu sviði á miðju gólfi. Hildur og samstarfsmenn hennar tóku sér stöðu við græjurnar og gestirnir þyrptust í kring. Verkið byggir nær eingöngu á umhverfisupptökum Hildar í lithásku kjarnorkuveri, en söngrödd hennar fær einnig að njóta sín þrátt fyrir algjöran skort á texta.
Samspil aðstæðna og sögunnar vöktu hugsanir um örvæntinguna í kjarnorkuverinu og þær þúsundir sem fórust í kjölfarið. Á völdu augnabliki blikkuðu ljósin svo ört að það var yfirþyrmandi. Undir lok verksins leið ærandi hljóðbylgja yfir salinn og í logninu sem fylgdi bergmálaði málmkennt högg og skruðningur sem minnti á Geiger-mæli. Maður fann nánast bragðið af geislavirkninni.
Ég steig út í sólina og reyndi að skilja hvernig íslensk tónlistarkona, í samstarfi við enska og ítalska hljóðlistamenn og þýskan ljósahönnuð, gat án tungumálsins látið gesti pólskrar símaverksmiðju upplifa úkraínska kjarnorkuógn.
Athugasemdir