Umræðan um samspil vinnu og einkalífs á Íslandi hefur tilhneigingu til að snúast að miklu leyti um vinnutíma og það hvernig brauðstritið þrengir að þeim tíma sem við höfum til að sinna heimilum okkar, fjölskyldum, félagslífi og áhugamálum. Það eru hins vegar ýmsar aðrar hliðar á árekstrum vinnu og einkalífs sem hafa áhrif á það álag sem við búum við. Þar á meðal er álag í einkalífinu. Eins og flest okkar hafa rekið sig á er einkalífið nefnilega ekki bara hvíld og leikur heldur vinnur hvert og eitt okkar umtalsverða ólaunaða vinnu í einkalífinu, svo sem matseld, tiltekt, minni háttar viðhald og viðgerðir, þvottarfjallið sem virðist aldrei minnka sama hversu dugleg við erum í þvottahúsinu.
Ólaunuð umönnun
Umtalsverður hluti ólaunaðrar vinnu felst í umönnun sem við veitum öðru fólki. Umönnun barna okkar vegur þungt í þeirri ólaunuðu umönnun sem við veitum. Börnum fylgja aukin heimilisstörf, svo sem meiri þvottur og meira uppvask og almenn tiltekt verður umtalsvert stærra verkefni þar sem leikföng hafa dularfulla tilhneigingu til að dreifa sér um íbúðir. Svo er það skutlið, flensur, vökunætur og rofinn svefn, heimanám, veita ráð, halda utan um félagslíf krílanna, finna upp á dægrastyttingu og bara allt það sem við þurfum að gera til að halda börnunum okkar hreinum, nærðum, heilbrigðum og hamingjusömum og stuðla að því að þau geti staðið á eigin fótum þegar þau verða fullorðin. Fyrir mörgum okkar er helsta uppspretta gleði og hamingju í hversdagslífinu en þetta er líka óttalegt puð.
Umönnun á líka við um ýmislegt sem við gerum fyrir veika, fatlaða og ellihruma ættingja og vini. Umfang slíkrar umönnunar vex gjarnan með aldri, til dæmis við það að foreldrar okkar eldast og fara að eiga erfiðara með ýmislegt í hversdagslífinu eða ef makar okkar missa heilsuna. Þá stíga margir inn í umönnun fatlaðra eða langveikra systkina þegar aldur gerir foreldrunum erfiðara fyrir að veita þeim umönnun. Í stuttu máli: Umönnun sem fólk veitir öðrum er veigamikill hluti af hversdagslífi þeirra.
Einna mesta umönnunarbyrðin hér
Nýverið vakti Þuríður Harpa Sigurðardóttir athygli á nýrri skýrslu Eurostat sem sýndi að umönnunarbyrðin væri einna mest á Íslandi. Ef við skoðum tölurnar í töflum Eurostat má til dæmis sjá að næstum einn af hverjum tíu íbúum Íslands veitir fötluðu, veiku eða öldruðu skyldmenni reglulega umönnun, sem er hæsta hlutfallið í Evrópu. Af Norðurlöndunum var Finnland með næsthæsta hlutfallið, 3,3%, sem er sléttur þriðjungur af hlutfallinu á Íslandi. Af þessu má leiða líkur að því að álag í einkalífi fólks á Íslandi sé umtalsvert og töluvert meira en á hinum Norðurlöndunum.
Guðmundur Steingrímsson tók sömu skýrslu til umfjöllunar í pistli á Vísi þar sem hann skellir skuldinni á hið opinbera með orðunum: „In Iceland we are proud to have built a welfare system that puts a large portion of the care responsibilities on the shoulders of relatives.“ Ég held að Guðmundur hafi mikið til síns máls en mig grunar að þetta risti jafnvel dýpra. Í tölum Eurostat úr sömu rannsókn má sjá að aðeins 3,4% fólks á aldrinum 25–64 ára á Íslandi sem hefur þurft að sinna umönnun hafði vikið af vinnumarkaði og aðeins 7,3% höfðu dregið úr vinnutíma vegna þess. Rannsóknin bendir hins vegar til þess að helsta aðferðin til að mæta árekstrum vinnu og heimilis sem leiða af umönnunarbyrði felist í sveigjanlegri viðveru og sveigjanlegum vinnutíma og flest þau gögn sem ég hef skoðað (þar með talið gögnin úr þessari rannsókn Eurostat) benda til þess að íslenskir atvinnurekendur séu ákaflega liðlegir og skilningsríkir hvað varðar þörfina fyrir slíkan sveigjanleika. Aðrar tölur Eurostat benda einmitt til þess að hlutföll fólks á Íslandi sem vinnur stundum á kvöldin, um helgar eða heima frá sér séu með þeim hæstu í Evrópu. Sveigjanleikinn dregur þannig úr árekstrum vinnu og heimilis, en álagið er eftir sem áður til staðar.
Álagið skiptist ekki jafnt á mismunandi þjóðfélagshópa
Álagið skiptist ekki jafnt á mismunandi þjóðfélagshópa. Þannig bendir rannsókn Eurostat til þess að um 3,8% fólks á aldrinum 25–49 ára veiti fötluðum, veikum eða öldruðum skyldmennum reglulega umönnun en 21,2% fólks á aldrinum 50–64 ára. Konur bera líka meiri byrðar af slíkri umönnun en karlar. Þannig veita tæp 25% kvenna á aldrinum 50–66 ára skyldmennum umönnun (ein af hverjum fjórum) en 17,4% karla. Það er ekki ósennilegt að umönnunarbyrði kvenna skýri að einhverju leyti af hverju fjölgun örorkulífeyrisþega á undanförnum árum sé að stærstum hluta tilkomin vegna kvenna 50 ára og eldri.
Hátt hlutfall fólks með langa vinnuviku
Mælingar Eurostat benda til þess að hlutfall fólks í fullu starfi með langa vinnuviku sé fremur hátt á Íslandi. Það eitt og sér segir sitt en alls ekki alla söguna. Hvort vinnuvikan sé of löng og álag í vinnu of mikið ræðst af stórum hluta af því álagi sem við erum undir í einkalífinu. Fyrir fólk með litla umönnunarbyrði þarf ekki að vera tiltökumál að vinna mikið og fyrir fólk í slíkri stöðu kann það jafnvel að vera eftirsóknarvert. Þá skiptir eðli starfsins máli, enda eru störf misjafnlega lýjandi. Fyrir fólk með umönnunarbyrði horfir þetta öðruvísi við. Fyrir einhverjum kann 40 stunda vinnuvikan að vera of löng, fyrir öðrum of stutt.
„Það er margt sem bendir til þess að við sem byggjum þetta land búum við mikið álag“
Punkturinn sem ég er að reyna að koma til skila er að það er margt sem bendir til þess að við sem byggjum þetta land búum við mikið álag. Hluta af þessu álagi má rekja til þess tíma sem við verjum í vinnu sem snýst að hluta til um kröfur atvinnurekenda en hluta einnig um vinnumenningu og vinnuviðhorf á Íslandi og líka um neyslumenningu. Þá skiptir sú umönnunarbyrði sem hið opinbera veltir yfir á einstaklinga sennilega umtalsverðu máli, eins og Guðmundur Steingrímsson bendir á. Ef við viljum draga úr álagi er hins vegar ekki nóg að horfa á eina hlið málsins, svo sem styttingu vinnuvikunnar eða að auka framboð af umönnunarþjónustu, því þetta hangir allt saman. Þetta er spurning um í hvernig samfélagi við viljum búa.
Athugasemdir