Mike Pence, varaforseti Bandríkjanna, kom hingað frá Írlandi. Þar lagði hann lykkju á leið sína til þess að geta gist eina nótt með fjölskyldu sinni og fylgdarliði á hóteli við bæinn Doonbeg. Hótelið er tengt golfvelli einum ágætum og er hvort tveggja í eigu Donalds Trump, forseta og leiðtogans mikla í lífi Mike Pence.
Á þessu hóteli er ekki ódýrt að gista. Pence borgaði sjálfur fyrir þá úr fjölskyldu sinni sem með honum voru en bandaríska ríkið borgaði fyrir hið fjölmenna fylgdarlið varaforsetans.
Donald Trump, eigandi hótelsins, gat eftir heimsókn varaforseta síns stungið þó nokkrum milljónum í vasann.
„Kicking up“
Í pistli á vefsíðu CNN í fyrradag vakti lögfræðingurinn Elie Honig athygli á að hér væri um að ræða fyrirbæri sem kallast „kicking up“ hjá bandarísku mafíunni. Ætlast er til þess að undirmenn „guðföðurins“, æðsta manns í hverri glæpaklíku, sjái til þess að góður hluti af tekjum þeirra endi í vasa foringjans. Stundum í formi gjafa, stundum með viðskiptum við fyrirtæki foringjans.
Í þakklætisskyni fyrir þá náð að fá að vinna fyrir foringjann verða undirforingjarnir að kappkosta að gera hann ríkari. Þetta „kicking up“ er óaðskiljanlegur hluti siðalögmálanna sem gilda innan glæpasamtakanna alræmdu, en einsog Honig bendir á er þetta að verða býsna vel þekkt í stjórnkerfi Trumps líka.
Dómsmálaráðherrann hélt til dæmis prívatveislu á Trump-hóteli nýlega og þar græddi Trump væna summu.
Pence er caporegime Trumps
Bæði varaforseti og dómsmálaráðherra eru því eins og hver annar „capo“ í þeirri mafíufjölskyldu sem stjórnkerfi Bandaríkjanna á dögum Trumps er orðið. Til að sýna þá breytingu sem orðin er bendir Honig á að þegar hann vann í dómsmálaráðuneytinu bandaríska hafi starfsmönnum verið bannað að koma með og selja á skrifstofunni smákökur sem dætur þeirra bjóða til styrktar skátunum – en slíkt mun vera alþekkt í bandarískum fyrirtækjum. Ekkert mátti gera til að kveikja minnstu grunsemdir um að starfsmenn ráðuneytisins blönduðu saman eigin fjárhag og starfi sínu.
Í fyrradag tóku Íslendingar með mikilli viðhöfn á móti þeim „caporegime“ Donalds Trump sem Mike Pence er. Og svona mynd af því hvernig hann og félagar auðga –eða „kick up“ klíkuforingjann eru eins og döpur staðfesting þess hve ömurleg þessi heimsókn var.
Við vorum að taka á móti mafíuforingja.
Af hverju var fallist á heimsóknina?
Ég hef enn ekki séð neina skýringu á því hvers vegna Pence kom eða hvers vegna íslensk stjórnvöld féllust á að taka á móti honum með herþotum, herþyrlum, leyniskyttum á þökum uppi og svo framvegis. Nú segja menn að slíkt húllumhæ sé ævinlega viðhaft þegar æðstu menn Bandaríkjanna ferðast um. Kannski er það rétt, en Íslendingar hefðu átt að hafa bein í nefinu til að segja „nei takk“ þegar í ljós kom að hingað kæmu sérstakar herflugvélar ásamt Pence.
Íslendingar hefðu yfirleitt átt að hafa bein í nefinu til að afþakka þessa vondu heimsókn.
Nú eru Bandaríkin vissulega mikilvæg bandalags- og viðskiptaþjóð okkar, en við hefðum ekki átt að taka þátt í þessum leikþætti – sem bersýnilega var settur upp til „heiðurs“ Kínverjum. Innihaldslaust og alrangt geip Mike Pence um áhrif Kínverja hér á landi sýndi það best.
Erum við leikmunir?
Við eigum ekki að vera leikmunir í raunveruleikaþætti Trumps og hyskis hans. Ég efast ekkert um að Guðni Th. Jóhannesson, Dagur B. Eggertsson og Katrín Jakobsdóttir hafi borið sig svo vel sem hægt var andspænis þessum ófögnuði og farið með ágætar þulur um okkar gildi og nauðsyn fjölbreytileika og hjólreiða og svo framvegis.
(Þið takið eftir að ég nefni ekki Guðlaug Þórðarson um leið og þau þrjú. Hans flaður upp um Pence var í allt annarri deild.)
„Þessi heimsókn var próf í því hvort við myndum láta bjóða okkur belging og hernaðarhyggju“
Í sjálfu sér fínt hjá Guðna, Degi og Katrínu.
En þau hefðu samt ekki átt að taka þátt í þessu.
Þessi heimsókn var próf í því hvort við myndum láta bjóða okkur belging og hernaðarhyggju Trump-mafíunnar á norðurslóðum. Og við stóðumst það próf með því að taka við þessum ósköpum.
Eða réttara sagt: Við féllum á prófinu.
Athugasemdir