Innleiðing þriðja orkupakkans var samþykkt á Alþingi fyrir hádegi í dag með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. 46 þingmenn greiddu atkvæði með orkupakkanum en 13 voru á móti, þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins auk Jóns Þórs Ólafssonar í Pírötum og stjórnarþingmannsins Ásmundar Friðrikssonar úr Sjálfstæðisflokki.
Andstæðingar þriðja orkupakkans mættu bæði á þingpalla og einnig á Austurvöll til að mótmæla afgreiðslunni og voru þeir nokkuð daufir í dálkinn þegar Stundin tók hús á þeim. Þeir hugðust þó ekki gefast upp og skora nú á forseta Íslands að neita að staðfesta þingsályktunartillöguna um þriðja orkupakkann.
„Þingmenn eru að ganga erinda örfárra sérhagsmunahópa en ekki almennings í landinu“
Ríflega eitthundrað manns voru mættir á Austurvöll um hádegisbil þar sem samþykkt orkupakkans var mótmælt. Þungt var yfir sumum mótmælenda vegna málsins. „Því miður þá finnst mér baráttan heldur veiklynd hérna. Ég segi að gulu vestin í Frakklandi séu menn, en Íslendingar mýs,“ sagði Fjóla Felixdóttir í samtali við Stundina. Hún sagðist telja að samþykkt þriðja orkupakkans væri bara upphafið, fleira myndi koma til og Íslendingar myndu missa fullveldið í hendur erlendra aðila.
Þrátt fyrir að Alþingi hafi afgreitt þriðja orkupakkann ætluðu mótmælendur ekki að gefa andstöðuna upp á bátinn. „Forseti Íslands getur snúið þessu við,“ sagði Jón Valur Jensson sem hefur verið býsna áberandi í andstöðunni við málið síðustu misseri. Jón Valur sagði þó að hafa yrði hraðar hendur við að safna undirskriftum við áskorun til forseta því stuttur tími væri orðinn til stefnu.
Þau sem Stundin ræddi við lýstu almennt þeirri skoðun að þau treystu ekki þingmönnum og Alþingi. Þá lýsti fólk áhyggjum sínum af því að verið væri að framselja vald í hendur Evrópusambandsins, að verið væri að veikja lýðræðið og að yfirráð yfir orkuauðlindunum myndu færast úr höndum Ísland. „Þingmenn eru að ganga erinda örfárra sérhagsmunahópa en ekki almennings í landinu,“ sagði Guðmundur Beck. „Ég trúi því að dagurinn í dag sé upphaf að einhverju slæmu,“ sagði Helga Austmann sem sagði einnig að hún mótmælti í dag, ekki fyrir sig heldur afkomendur sína.
Athugasemdir