Eignarhaldsfélagið Drífa ehf., sem meðal annars selur föt undir heitinu Icewear ehf. og minjagripi í stórum stíl, skilaði tapi í fyrsta skipti í 10 ár í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins. Drífa ehf. er í eigu Ágústs Þórs Eiríkssonar. Tap Drífu ehf., sem meðal annars rekur stórar verslanir með föt og minjagripi í miðbæ Reykjavíkur og á Vík í Mýrdal, nam rúmlega 23 milljónum króna í fyrra. Fyrirtækið seldi vörur fyrir rúmlega 3 milljarða króna í fyrra.
Félagið skilaði síðast taprekstri árið 2008, árið sem bankahrunið reið yfir. Tapið þá var tæplega 19 milljónir.
Í fyrra fékk félagið meðal annars tæplega 258 milljónir króna í tjónabætur út af eldsvoða sem átti sér stað í verslun, skrifstofum og lager fyrirtækisins í Miðhrauni í Garðabæ í apríl í fyrra. Helsta skýringin fyrir tapi félagsins er aukin vörunotkun upp á tæplega 400 milljónir og aukning á launakostnaði upp á nærri 100 milljónir króna.
„Það er línulegt samhengi í sölu minjagripa og fjölgun ferðamanna.“
Úr 12 starfsmönnum í 102
Til að setja vöxt Drífu og Icewear á liðnum árum í samhengi þá störfuðu 12 starfsmenn hjá fyrirtækinu árið 2012 en 102 í fyrra. Árið 2008 voru starfsmennirnir 8.
Stundin og aðrir fjölmiðlar hafa í gegnum árin oft fjallað um vöxt og stækkun Drífu í túristagóðærinu sem ríkt hefur á Íslandi á liðnum árum og hefur fyrirtækið verið eitt af táknum þess vaxtar vegna þess að vörur fyrirtækisins eru að langmestu leyti keyptar af ferðamönnum. Lundabangsarnir sem Drífa hefur selt ásamt öðrum verslunum urðu um hríð eitt af táknum ferðmannagóðærisins.
Í viðtali við Stundina árið 2015 sagði Ágúst Þór Eiríksson meðal annars : „Við erum stærsti heildsalinn í minjagripum á Íslandi. Það er línulegt samhengi í sölu minjagripa og fjölgun ferðamanna.“
Í fyrsta skipti um árabil stóð koma erlendra ferðamanna til Íslands nánast í stað á milli áranna 2017 og 2018 eftir mikla aukningu ári frá ári á árunum þar á undan: Fjölgunin var rétt rúmlega 100 þúsund.
Vörusalan hjá Drífu og Ágústi hélst einnig lítið breytt á milli áranna 2017 og 2018, hækkaði um 67 milljónir og fór úr tæpum 3 milljörðum upp í rúmlega 3 milljarða. Til samanburðar jókst vörusalan hjá Drífu um rúmlega hálfan milljarð á milli áranna 2016 og 2017.
Deilurnar um verslunarhúsnæðið í Leifsstöð
Drífa er eitt af þeim fyrirtækjum sem hefur staðið í stappi við Isavia út af útboðinu á verslunarhúsnæði í flugstöðinni árið 2014. Drífa hafði rekið verslun í Leifsstöð frá árinu 1988 en fékk ekki inni í flugstöðinni með verslun í útboðinu. Drífa stefndi Isavia vegna þessa. Forsendur Drífu voru það mat fyrirtækisins að það hefði átt hagstæðasta tilboðið í verslunarhúsnæðið en að samt sem áður hefði það ekki fengið húsnæði undir verslun á flugvellinum. Kröfugerð Drífu gegn Isavia í stefnunni byggði á áætluðum söluhagnaði í versluninni í Leifsstöð á árunum 2015 til 2019 og nemur krafan rúmum 900 milljónum króna. Sú krafa byggist á ætluðum tekjum, tæpum fimm milljörðum, sem skiptast niður á tæpa þrjá milljarða vegna minjagripa og tvo milljarða vegna sölu á fatnaði. Í viðtali við Stundina sagði Ágúst Þór eitt sinn um kröfugerðina. „Þetta eru takmörkuð gæði og besta markaðstorg á Íslandi.“
Isavia hefur hafnað kröfum Drífu sem tilhæfulausum líkt og komið hefur fram í ársreikningum ríkisfyrirtækisins. „Á árinu 2015 höfðaði Drífa ehf. dómsmál á hendur Isavia ohf. þar sem krafist er skaðabóta vegna meints tjóns í tengslum við framkvæmd forvals vegna leigu verslunarrýmis á fríhafnarsvæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Dómnefnd forvalsins taldi tilboð annars bjóðanda hagstæðara en tilboð Drífu ehf. Stefnufjárhæð í málinu er nú um 1,5 milljarðar króna. Isavia ohf. telur að í öllu hafi rétt verið staðið að forvalinu og að málatilbúnaður Drífu ehf. sé tilhæfulaus.“
Deilur Drífu ehf. og Isavia eru ennþá fyrir dómstólum en fyrr í sumar dæmdi héraðsdómur Isavia í vil í málinu. Máli Drífu ehf. hefur hins vegar verið áfrýjað til Landsréttar og verður tekið fyrir þar öðrum hvoru megin við áramótin.
Þrátt fyrir að Drífa hafi orðið af miklum tekjum við missi verslunarhúsnæðisins í Leifsstöð eftir útboðið var samt mikill vöxtur á tekjum félagsins milli ára, allt þar til í fyrra.
Athugasemdir