Björn Bragi Arnarsson uppistandari lofar „persónulegra gríni en áður“ í nýrri sýningu. Í lok október í fyrra játaði hann að hafa áreitt 17 ára stúlku kynferðislega.
„Síðasta haust var ég að spá í að flytja úr landi og koma aldrei aftur,“ skrifaði hann á Facebook á fimmtudag. „Í staðinn fáið þið uppistandið Björn Bragi Djöfulsson, föstudaginn 13. september í Gamla bíói. Anna Svava verður með mér og hitar upp. Vil þakka Leoncie fyrir að hafa komið með heitið á sýningunni en hún kallaði mig þessu geggjaða nafni í kommentakerfi DV.“
Björn Bragi flutti hins vegar ekki úr landi heldur tók aftur þátt í sýningum Mið-Íslands í Þjóðleikhúskjallaranum sem byrjuðu á ný í janúar á þessu ári. Sýningarnar hafa verið ein helsta tekjulind meðlima hópsins, en samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra þénaði Björn Bragi tæplega 1,5 milljónir á mánuði á síðasta ári. Þá var Björn Bragi einnig spyrill í Gettu betur, en hann sagði starfi sínu lausu vegna málsins.
Nýja sýningin hefur vakið hörð viðbrögð á samfélagsmiðlum. „Þetta mál var allavega uppspretta margra brandara á Mið-Ísland uppistandi sem ég fór á í janúar (bæði hjá honum og öðrum),“ skrifar Twitter-notandinn Þóra Sif Guðmundsdóttir. „Fannst það mjög óviðeigandi. Enn fremur skil ég ekki hvernig sú staðreynd að hann káfaði á 17 ára stúlku teljist sem gott efni í grín.“
Björn Bragi bað stúlkuna opinberlega afsökunar og sendi hún frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði sig og foreldra sína taka afsökunarbeiðninni. Í kjölfarið steig önnur kona fram og sagði Björn Braga hafa áreitt sig og vinkonur sínar.
„Ég á tvær litlar dætur, ég vil ekki að þær alist upp í þjóðfélagi þar sem það telst eðlilegt og samþykkt að skemmtikraftar á fertugsaldri eru að káfa á og reyna við ungar stelpur,“ skrifar Guðný Thorarensen á Twitter. „Hættið að kóa með þessum mönnum! Þetta er ekki eðlileg hegðun.“
Athugasemdir