Á fyrstu sjö mánuðum ársins sóttu 444 manns um hæli hér á landi. Fjöldi umsókna er nokkuð meiri en á sama tímabili í fyrra þegar 370 hælisumsóknir bárust. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Umsækjendur eru af 60 þjóðernum. Flestir eru frá Írak, eða 74 talsins, en umsækjendur frá Venesúela eru nú næstfjölmennasti hópurinn, 46 talsins. „Ef frá eru taldir þeir sem koma frá öruggum upprunaríkjum hefur fólk frá Írak alltaf verið fjölmennasti hópurinn,“ segir Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar. „Nú er fólk frá Venesúela aftur á móti mjög fjölmennur hópur, mun fjölmennari nú en undanfarin ár, og skýrist það eflaust af stjórnmálaástandinu þar í landi.“
Af þeim 303 umsóknum sem Útlendingastofnun tók til efnislegrar meðferðar á tímabilinu lauk 154 með ákvörðun um veitingu alþjóðlegrar verndar (55) eða viðbótarvernd (88) og 11 með veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum. Í 149 tilvikum mættu umsækjendur synjun. Flestar veitingar voru til umsækjenda frá Írak (27), Venesúela (44) og Sýrlandi (15), en flestir þeirra sem var synjað komu frá Moldóvu (33), Írak (31) og Georgíu (14).
Í fyrra voru umsóknir á Íslandi 800 talsins og umsækjendur af 70 þjóðernum. Þórhildur Ósk segist eiga von á fleiri umsóknum í ár. „Við höfum ekki gert ráð fyrir því að þetta ár verði minna en í fyrra,“ segir hún. „Það verður að líkindum svipað og síðastliðin ár og kannski nær 2017 þegar umsækjendur voru talsvert fleiri.“
Athugasemdir