Sérstakir aukavaraforsetar Alþingis töldu lýsingar Bergþórs Ólasonar og Gunnars Braga Sveinssonar á samskiptum þeirra við Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur ekki skipta máli við mat á því hvort þeir hefðu brotið siðareglur með ummælum um þingkonuna.
Á Klaustursupptökunum mátti heyra þingmennina gantast með að Albertína hefði reynt að „nauðga“ þeim, annars vegar á herrakvöldi íþróttafélagsins Vestra og hins vegar í samkomuhúsinu í Hnífsdal. „Það voru ýmsir sem sögðu ‘take one for the team’ en Beggi var ekki til,“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar mikinn hlátur viðstaddra.
Eftir að siðanefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að Bergþór og Gunnar Bragi hefðu brotið siðareglur með ummælum sínum um Albertínu hafa þeir fullyrt, í andmælabréfi til forsætisnefndar, að í umræðunni um Albertínu hafi þeir verið að opna sig í öruggu umhverfi, lýsa erfiðri reynslu, áreitni og því sem Bergþór kallar „kynferðisbrot“.
Sérstakir aukavaraforsetar Alþingis, þau Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson sem standa að niðurstöðu forsætisnefndar, telja að þessi lýsing þingmannanna á málavöxtum skipti ekki máli.
„Lýsing BÓ og GBS á málavöxtum og viðhorf þeirra sem þar koma fram verður ekki lögð til grundvallar við mat á því hvort þeir hafi brotið gegn meginreglum“
„Hvað viðkemur lýsingu BÓ og GBS á samskiptum þeirra við Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, sbr. kafli 2.5., verður ekki séð að lýsingar þeirra á þeim skipti máli við mat á þeim málavöxtum sem raktir voru í afmörkunarbréfum forsætisnefndar 15. apríl 2019 og ekki hefur verið hafnað,“ segir í niðurstöðu forsætisnefndar.
„Er það niðurstaða forsætisnefndar að lýsing BÓ og GBS á málavöxtum og viðhorf þeirra sem þar koma fram verður ekki lögð til grundvallar við mat á því hvort þeir hafi brotið gegn meginreglum um hátterni og hátternisskyldum alþingismanna samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn.“
Athugasemdir