„Réttur Íslands til að heimila eða hafna lagningu sæstrengs inn fyrir landhelgina stendur óhaggaður hvað sem þriðja orkupakkanum eða öðrum ákvæðum EES-samningsins líður.“ Þetta skrifar Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild HR og forstöðumaður Alþjóða- og Evrópuréttarstofnunar HR, í grein í Fréttablaðinu í dag.
Andstæðingar innleiðingar þriðja orkupakkans hafa haldið því fram að íslensk stjórnvöld og Alþingi muni ekki geta staðið í vegi fyrir lagningu sæstrengs til Íslands, verði þriðji orkupakkinn innleiddur á Íslandi.
Í grein sinni segir Bjarni Már að orkupakkinn fjalli ekki um skyldu aðildarríkja EES til að koma á eða leyfa samtengingu um flutning orku sín á milli. „Þessar kenningar eru firra,“ skrifar hann.
„Synjun eða höfnun orkupakkans hefur því engin bein áhrif á hvort lagður verði slíkur sæstrengur eða ekki,“ skrifar Bjarni Már. „Ein meginstoð EES-samningsins er frjálst flæði vöru. Þrátt fyrir að rafmagn sé skilgreint sem vara leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að sérhvert ríki eða einkaaðili á EES-svæðinu geti lagt sæstreng hingað til lands og tengst íslenska raforkukerfinu án þess að íslenska ríkið ráði neinu þar um.“
„Synjun eða höfnun orkupakkans hefur því engin bein áhrif á hvort lagður verði slíkur sæstrengur eða ekki“
Nefnir Bjarni Már að öll aðildarríki EES-samningsins, sem og Evrópusambandið, séu aðilar að hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Taka verði því tillit til hans í þessu samhengi, en ríki ráði því hvort sæstrengur sé lagður inn fyrir landhelgi þess.
„Af túlkunarreglum þjóðaréttar leiðir að skýra verður ákvæði EES-samningsins um frjálst flæði vöru til samræmis við ákvæði hafréttarsamningsins. Það þýðir að meginreglan um frjálst flæði vöru leiðir ekki til þess að á íslenska ríkinu hvíli skylda til að heimila lagningu sæstrengs sem flytur rafmagn hingað til lands. Íslenska ríkið getur því ekki orðið skaðabótaskylt af því að synja rétti sem er ekki til staðar. Það er útilokað. Að halda öðru fram er nýlunda í sögu alþjóðasamskipta,“ skrifar Bjarni Már.
Athugasemdir