„Ég er með kökk í hálsinum af kvíða eftir að hafa lesið þetta viðtal,“ skrifar Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi þingkona Pírata, á Facebook og vísar til viðtals Stundarinnar við Söru Elísu Þórðardóttur, varaþingkonu flokksins.
Í viðtalinu lýsir Sara samskiptaháttum Birgittu Jónsdóttur með opinskáum hætti og sakar hana um að hafa komið óheiðarlega fram við samstarfsfólk og beitt andlegu ofbeldi.
Ásta Guðrún segir viðtalið hafa ýft upp áfallastreituna sem hún hafi glímt við síðan hún hætti á þingi. „Það að sjá aðra tala eins og úr mínu hjarta um þetta samstarf er ákveðin viðurkenning á því sem ég upplifði. Þetta var þá ekki allt saman bara í hausnum mér.“
Þór Saari, fyrrverandi þingmaður Hreyfingarinnar og samstarfsmaður Birgittu, er annarrar skoðunar og telur að núverandi þingmenn Pírata eigi tilvist sína í pólitík henni að þakka.
„Byltingin étur börnin sín,“ skrifar hann. „Þetta er bara frekar ógeðsleg framkoma. Birgitta var tilnefnd í þetta hlutverk af grasrót Pírata en nú hefur elítan í flokknum, það er þingmennirnir, gert það kýr skýrt hverjir ráða. Grasrót Pírata, sem hefur verið merkilegt fyrirbæri og fyrirmyndar lýðræðistilraun, hefur endanlega verið jörðuð af þingflokknum.“
Margrét Tryggvadóttir, sem einnig sat á þingi fyrir Hreyfinguna ásamt Birgittu, tekur hins vegar undir lýsingar Söru Elísu.
„Allt þetta kannast ég vel við og þurfti að þola. Takk Sara, ég hefði ekki getað orðað þetta betur,“ skrifar hún. „Það er ekki hefnd að segja frá ofbeldi.“
Birgitta Jónsdóttir hefur ekki viljað tjá sig um þessi mál við Stundina.
Athugasemdir