Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta um þingkonur Demókrataflokksins óboðleg. Þetta segir upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar í svari við fyrirspurn Stundarinnar. „Katrín tekur þar með undir álit meirihluta fulltrúadeildar bandaríska þingsins. Hún telur ummælin dæma sig sjálf.“
Donald Trump birti harðorða Twitter-færslu síðustu helgi þar sem hann beindi spjótum sínum að fjórum Demókrataþingkonum af erlendum uppruna og sagði þeim að snáfa heim til sín. Þetta hefur vakið mikla hneykslan, en í gær fordæmdi meirihluti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings ummælin og sagði þau einkennast af rasisma.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, gagnrýndi ummæli Trumps í fyrradag og sagði þau „fullkomlega óásættanleg“. Þá hafa Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, og Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands lýst vanþóknun sinni. Nú hefur Katrín Jakobsdóttir bæst í hóp þjóðarleiðtoga sem taka afgerandi afstöðu gegn framgöngu Donalds Trump.
Athugasemdir