Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 43 tilkynningar um kynferðisbrot sem áttu sér stað í maí. Fjölgunin er verulega mikil, bæði milli mánaða, og miðað við bæði 6 mánaða meðaltal og 12 mánaða meðaltal.
Í apríl síðastliðnum bárust lögreglunni 9 tilkynningar um kynferðisbrot. Að meðaltali voru 19 kynferðisbrot tilkynnt á mánuði á 6 mánaða meðaltali þar á undan og einnig 19 brot að meðaltali á mánuði á 12 mánaða tímabili þar á undan. Fjölgunin frá meðaltali nemur 128 prósentum. Þá voru 67 kynferðisbrot skráð í maí síðastliðnum, ótengt því hvenær brotin voru framin.
Alls hafa 114 kynferðisbrot verið tilkynnt það sem af er ári, samanborið við 127 á sama tímabili árið 2018. Sé hins vegar horft á meðaltal tilkynninga síðustu þrjú ár á undan, árin 2016 til 2018, hafa lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu borist fjögur prósent fleiri tilkynningar um kynferðisbrot það sem af er ári.
Tilkynnt var um kynferðisbrot í öllum fjórum löggæsluhverfum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í maí, en það er breyting frá fyrri mánuði þar sem eingöngu voru skráð kynferðisbrot á löggæslusvæði 1, sem nær yfir Miðborg, Vesturbæ, Seltjarnarnes, Háaleiti, Hlíðar og Laugardal. Þar voru skráð brot einnig langflest í maí, eða 31.
Í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að þessa miklu fjölgum megi einna helst rekja til aðgerða lögreglunnar í vændismálum. Undanfarnar vikur hafi embættið staðið í sérstökum aðgerðum tengdum mansali en vændi sé ein af birtingarmyndum mansals. Engar frekari skýringar eru þó gefnar hvað þetta varðar, né heldur er birt nánari tölfræði.
Athugasemdir