Lýðskrum og ómálefnaleg rök falla utan réttarverndar tjáningarfrelsisákvæða stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála sem Ísland hefur undirgengist. Þetta er mat Héraðsdóms Reykjavíkur og fullyrt í tveimur dómum sem dómarinn Arnar Þór Jónsson kvað upp í gær.
Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum voru Oddný Arnarsdóttir og Hildur Lilliendahl Viggósdóttir dæmdar til greiðslu miskabóta vegna ummæla sem þær létu falla á samfélagsmiðlum eftir að Fréttablaðið hafði slegið því upp á forsíðu að tveir karlmenn væru grunaðir um að fremja hrottaleg kynferðisbrot í íbúð í Hlíðunum sem hefði verið „útbúin til nauðgana“. Málin voru felld niður og mennirnir ekki ákærðir. Fréttablaðið dró fréttina þó aldrei til baka né baðst afsökunar á framsetningunni en fréttamenn sem skrifuðu um Hlíðamálið og aðrir sem tjáðu sig um mennina líkt og þeir væru sekir hafa verið dæmdir til greiðslu miskabóta.
Í öðrum dóminum er stefnda gagnrýnd fyrir að birta ummæli um mennina undir yfirskriftinni „Ekki mínir almannahagsmunir“. Telur dómurinn að skilgreina verði „lagaleg hugtök á borð við almannahagsmuni“ út frá hlutlægum forsendum en ekki huglægum og persónubundnum. Bent er á að þótt lög eigi rætur að rekja til almennings þá sé ekki þar með sagt að almennum borgurum leyfist að „taka lögin í sínar hendur“.
„Ef hafna ætti þessu og selja hverjum og einum sjálfdæmi í þessum efnum molnar réttarríkið innanfrá samhliða því að borgararnir verða ofurseldir duttlungum þeirra sem best gengur að sölsa undir sig áhrif og völd. Á þennan hátt plægir afstæðishyggja jarðveg harðstjórnar og kúgunar, þar sem æðstu hugsjónum réttarríkisins, á borð við einstaklingsfrelsi og mannréttindi, er vikið til hliðar í þágu gerræðis,“ segir í dóminum. „Hér kristallast nauðsyn þess að borgararnir gangi ekki svo í langt í einstaklingsbundinni eða dilkakenndri sérhyggju að þeir slíti í sundur lögin og þar með friðinn.“
„Ómálefnaleg rök, dylgjur, sögusagnir, múgæsing og lýðskrum á ekki erindi inn í slíka umræðu og er ekki verndað af tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár“
Það sem er þó einna athyglisverðast í dómunum er textabrot – rétt á eftir umfjöllun um grunngildi réttarríkisins og mikilvægi þess – þar sem því er slegið föstu að ýmiss konar tjáning falli utan þeirrar réttarverndar sem tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrár Íslands og mannréttindasáttmála veita.
Héraðsdómur segir að í lýðræðisríki sé mikilvægt að fjölmiðlar og almenningur veiti handhöfum opinbers valds nauðsynlegt aðhald og bætir við: „Það gera menn með málefnalegri gagnrýni, sem grundvölluð er á staðreyndum og haldföstum rökum sem reist eru á traustum grunni. Í því ljósi blasir við að ómálefnaleg rök, dylgjur, sögusagnir, múgæsing og lýðskrum á ekki erindi inn í slíka umræðu og er ekki verndað af tjáningarfrelsisákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála.“
Athugasemdir