Þegar ég fékk símtalið frá vinkonu minni, henni Ölmu Mjöll, um hvort ég vildi skrifa pistil um hamingju, fékk ég hnút í magann og hugsaði strax: „Ó, nei! Ég hef engan tíma, alltof mikið að gera, alltof mikið stress. Brjálað að gera í vinnunni og ég er að fara að gifta mig eftir tvær vikur!“ Þessi hugsun varð til þess að ég sagði já. Það væri synd og í raun afar kaldhæðnislegt að afþakka það að gefa mér tíma til að skrifa um hamingju, vegna áhyggna og kvíða yfir hlutum sem ættu að veita mér hana. Ég hef reynt að sigrast á því að leyfa kvíðanum að verða sterkari en hamingjan. Í þessu tilfelli ætla ég að gefa mér tíma í að setjast niður og skrifa um það sem veitir mér hamingju, því ég er svo lánsöm að vera ótrúlega hamingjusöm. Auðvitað koma tímar þar sem ég gleymi mér í amstri daganna sem er stundum svo plássfrekt.
Ég hef alla tíð lifað afar hamingjuríku lífi. Ég er alin upp í ástríku umhverfi og ég veit hreinlega ekkert betra en að upplifa hamingju, enda finnst mér hún mikilvægust af öllum tilfinningum. Hamingjan á nefnilega svo margar fallegar tilfinningasystur: gleðin, traustið, kærleikur, spenna, tilhlökkun, væntumþykja og sú allra fallegasta, ástin. Þegar það koma tímar þar sem ég villist af leið og stend á krossgötum, þá hugsa ég um það sem veitir mér hamingju, og fer þá leið.
Það var fyrir akkúrat tveimur árum sem ég strunsaði, í miðri tilvistarkreppu, upp á Ásafjall sem er bæjarfjallið mitt í Svarfaðardal. Á þessum tíma var ég búsett í miðbæ Reykjavíkur, búin að vera þar í sex ár, komin með lýjandi skólaleiða að reyna að klára BA-ritgerð í þjóðfræði. Ég var búin að missa þráðinn og vissi ekki hver ég var og hvað ég ætlaði að gera með líf mitt. Dramatískt? Dálítið.
„Ég var búin að missa þráðinn og vissi ekki hver ég var og hvað ég ætlaði að gera með líf mitt. Dramatískt? Dálítið.“
Eftir þrotlausa göngu og raus upp fjallshlíðina, staldraði ég við uppi á stórum steini þar sem ég horfði yfir dalinn sem ég er fædd og uppalin í. Ég sá bernskuheimilið í fjarska og andaði að mér vorilminum sem ég vildi að ég gæti fangað í ilmvatnsglas. Það var á þeirri stundu sem ég fann fyrir hamingju í hjartanu. Ég var komin heim þar sem rætur mínar lágu og það sem meira var, ég var yfir mig ástfangin. Það var þá sem ég hugsaði: „Hvað er ég að gera? Auðvitað flytjum við bara heim!“ Ég tók upp símann, hringdi í ástmann minn sem var þá í Reykjavík og spurði hvort við ættum ekki að flytja aftur heim í Svarfaðardal. „Ég er til!“ Ég var nýbúin að finna ástina í lífi mínu nokkrum mánuðum áður og það vildi svo heppilega til að hann er Svarfdælingur, alveg eins og ég. Tilviljun? Ég held ekki.
Frá og með þessari hvatvíslegu ákvörðun hef ég einbeitt mér að því sem skiptir mig mestu máli. Hamingjunni. Ég man að ég var alltaf að bíða eftir því að klára eitthvað áður en ég gat flutt aftur í heimahagann, eins og það væri einhver skömm í því að flytja aftur til baka án þess að vera búin að sigra heiminn. Þegar ég flutti heim þá var ég búin að sigra heiminn, minn eigin heim, þann heim sem ég kaus að lifa í. Stundum græt ég yfir því hversu hamingjusöm ég er. Ekki sorgartárum, heldur hreinum gleðitárum. Það er mögnuð tilfinning. Stundum græt ég yfir því hversu kvíðin ég er og hvað allt sé ómögulegt og erfitt, en þá lít ég upp og sé allt sem ég á í kringum mig. Ég sé sveitina mína, ég sé fjölskylduna mína, fólkið mitt. Ég sé heimilið mitt, ég sé náttúruna í allri sinni dýrð, ég heyri í fuglunum, ég finn lykt af lynginu, ég sé fjöllin faðma dalinn og ég sé hann, verðandi eiginmanninn minn, sem hvíslar brosandi: „Björk, þetta verður allt í lagi!“
Hamingjan hefur kennt mér svo margt, hamingjan hefur gefið mér svo margt og með hamingjunni get ég allt.
Þetta verður allt í lagi, hamingjan er rétt handan við hornið, eða bara á næsta sveitabæ.
Athugasemdir