Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í forsætisnefnd, hefur sagt sig frá umfjöllun nefndarinnar um meint brot Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Levís Gunnarssonar á siðareglum fyrir alþingismenn. Þetta staðfestir hún í samtali við Stundina.
Eins og fram kom á föstudaginn hefur siðanefnd Alþingis skilað forsætisnefnd ráðgefandi áliti þar sem Þórhildur Sunna er sögð hafa brotið siðareglur fyrir alþingismenn þegar hún sagði í Silfrinu þann 25. febrúar 2018 að uppi væri rökstuddur grunur um að Ásmundur Friðriksson þingmaður hefði dregið sér fé.
Forsætisnefnd hefur ekki tekið lokaákvörðun í málinu. Haft var eftir Bryndísi Haraldsdóttur í frétt RÚV á sunnudag að hún hefði talið heppilegra að trúnaður ríkti um niðurstöðu siðanefndar meðan forsætisnefnd lyki meðferð sinni.
„Nú stöndum við frammi fyrir því hvort við munum gera afstöðu siðanefndar að okkar eða taka aðra afstöðu,“ sagði hún. „Fyrir mitt leyti, og ég tala bara fyrir sjálfa mig, þá finnst mér þessi umræða núna mjög óheppileg og ef eitthvað er þá eru minni líkur á því að ég myndi taka aðra afstöðu í dag eftir þessa umræðu, því þá fyndist mér augljóst að maður væri að láta undan einhverjum pólitískum og fjölmiðla þrýstingi.“
Skrifstofa Alþingis og forsætisnefnd hafa litið svo á að nefndarmenn séu bundnir af hæfisreglum stjórnsýslulaga við meðferð siðareglumála. Stundin hafði samband við Bryndísi og spurði hvort hún teldi sig hugsanlega hafa gert sig vanhæfa til frekari umfjöllunar um mál Þórhildar Sunnu og Björns Levís með þessum ummælum sínum í viðtalinu á RÚV. „Jú, mér tókst það... rækilega,“ segir hún. „Ég sagði mig frá málinu á forsætisnefndarfundi nú á mánudaginn.“
Ásmundur fékk niðurstöðuna afhenta og gagnrýnir trúnaðarbrest
Haft var eftir Ásmundi Friðrikssyni á Mbl.is á föstudaginn að hann væri hissa á því að trúnaður um niðurstöðu siðanefndar hefði ekki verið virtur „Ég var beðinn um trúnað vegna þessa máls og ég hef hugsað mér að halda þann trúnað,“ sagði hann. Í kjölfarið kom Þórhildur Sunna fram í viðtali í Fréttablaðinu og setti spurningamerki við að Ásmundi skyldi hafa verið tilkynnt um ráðgefandi álit siðanefndarinnar. „Það er ljóst af siðareglunum sjálfum, að það á ekki að tilkynna Ásmundi neitt fyrr en niðurstaða forsætisnefndar liggur fyrir,“ sagði hún.
Bryndís Haraldsdóttir segir að samkvæmt almennum málsmeðferðarreglum hafi verið talið eðlilegt að aðilar máls fengju niðurstöðu siðanefndar afhenta og tækifæri til að bregðast við henni. „Auðvitað er þeim frjálst að upplýsa um málið eftir að hafa fengið slíkt bréf. En mér skilst nú samt engu að síður að þess hafi verið getið í tölvupósti til þeirra að æskilegt væri að um málið færi trúnaður í ljósi þess að það er enn í meðförum nefndarinnar. Það sem ég vísaði til þarna [í RÚV-viðtalinu, innsk. blaðam.] var bara að mér finnst það miður að hafinn sé slagur um þetta í fjölmiðlum þegar nefndin hefur ekki lokið meðferð málsins.“
Athugasemdir