Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju, er fórnarlamb „galdrabrennu“. Þetta er á meðal þess sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins heldur fram í dag. Gagnrýnir hann sérstaklega að fjölmiðlar skuli „þykjast hafa rannsóknarvald og jafnvel sjálfskipað dómsvald“ gagnvart mönnum sem verða fyrir alvarlegum ásökunum.
Í leiðaranum er vikið að brottrekstri lögfræðingsins Ronald Sullivan frá Harvard-háskóla í kjölfar verjendastarfa hans fyrir kvikmyndaframleiðandann Harvey Weinstein. „Með ákvörðun skólayfirvalda í Harvard um að víkja Sullivan úr stöðu sinni vegna hótana nemenda er vegið að réttarríkinu í Bandaríkjunum. Að slík atlaga komi frá háskóla sem hingað til hefur verið með þeim virtari, er verulegt áhyggjuefni.“
Þá gagnrýnir leiðarahöfundur rannsóknaraðferðir Lundúnalögreglu á meintum barnaníðshring í efsta lagi breska stjórnkerfisins. „Það voru safaríkar fréttir og enginn skortur á áreiðanlegum lekum. Æra Heath forsætisráðherra fauk fyrir lítið. Aðrir þekktir menn komu við sögu. Gerð var húsleit á heimili Leon Brittan, fyrrverandi ráðherra og komissar hjá ESB, sem kominn var vel á áttræðisaldur. Hann lést brotinn maður á meðan „málið var í rannsókn“.“
Maður á sextugsaldri, sem sjálfur hefur verið dæmdur fyrir brot gegn ungum drengjum, hefur nú verið ákærður fyrir að bera ljúgvitni gegn fjölda stjórnmálamanna og afvegaleiða lögregluna við rannsókn hins meinta barnaníðshrings, sjá t.d. umfjöllun The Telegraph í gær. „Nú er upplýst að „heimildin“ spann söguburðinn upp og dró lögregluna á asnaeyrum. Ekkja Brittans fékk háar bætur frá skattgreiðendum og rannsóknin kostaði hundruð miljóna,“ segir í leiðara Morgunblaðsns.
Allt er þetta svo sett í samhengi við mál Ólafs Jóhannssonar, sóknarprests í Grensáskirkju sem fimm konur sökuðu um kynferðislega áreitni og fundinn var sekur um siðferðisbrot gegn tveimur þeirra af úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar. „Offorsið gagnvart presti í Grensássókn minnir á aðrar galdrabrennur,“ segir leiðarahöfundur en ritstjórar Morgunblaðsins eru Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Haraldur Johannessen.
Athugasemdir