Fréttablaðið er flott fríblað, fyrst og fremst vegna þess að þar starfar og hefur starfað hæfileikaríkt og útsjónarsamt fólk sem gerir það besta úr þröngri stöðu.
Útgefandi Fréttablaðsins kemst að þeirri niðurstöðu í leiðara sínum í blaðinu í dag, þar sem hún sakar menntamálaráðherra um „blekkingu“, að það breyti engu fyrir blaðið að fá 50 milljónir króna í ríkisstyrki á hverju ári.
Þetta er hluti af yfirstandandi herferð forsvarsmanna Fréttablaðsins vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að koma upp styrkjakerfi fyrireinkarekna fjölmiðla, á þeim grundvelli að þau vilja að Fréttablaðið fái meiri styrki og flestir aðrir minna af styrkjum eða enga.
Fréttablaðið fær tugi milljóna króna á hverju ári úr ríkissjóði ef frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra nær fram að ganga. Útgefandi blaðsins sakar hins vegar ráðherrann um blekkingu í harðorðum leiðara sínum, vegna þess að ráðherrann vill ekki veikja RÚV á móti og undanskilja flesta aðra fjölmiðla frá styrkjum. Samtals eru ríkisstyrkir til fjölmiðla yfir þrjú hundruð milljónir króna, samkvæmt frumvarpsdrögunum. Eins og frumvarpið hefur verið kynnt er gert ráð fyrir því að fjórðungur ritstjórnarkostnaðar verður endurgreiddur, upp að 50 milljónum króna.
Í umsögn Fréttablaðsins um frumvarpið var hins vegar lagt til að dagblaðaritstjórnir, aðrar en Fréttablaðið og Morgunblaðið, fengju enga styrki. Þá er lagt til að ritstjórnir geti selt meira af efnissíðum sínum en gert er ráð fyrir, eða 70 prósent frekar en 60 prósent af efnissíðum. Þau biðja um að fjölmiðlar með færri en 20 í ritstjórn fái enga styrki, en það útilokar öll blöð önnur en Fréttablaðið og Morgunblaðið. Samfara því verði þakið hækkað og þessi tvö blöð fái meira.
„Einu fjölmiðlarnir á Íslandi sem keppa við RÚV af einhverju afli eru Fréttablaðið, Sýn og Morgunblaðið,“ skrifar útgefandi Fréttablaðsins.
En er það alveg rétt og sanngjarnt? Staðreyndin er sú að aðrir miðlar hafa staðið sig vel.
Stundin er til dæmis sá einkarekni fjölmiðill sem hefur fengið flestar tilnefningar til blaðamanna- og ljósmyndaverðlauna, frá stofnun blaðsins árið 2015. Þá hafa blaðamenn af öðrum miðlum, til dæmis Kjarnanum, DV og tímaritaútgáfu Birtings, unnið til verðlauna, engu síður en Fréttablaðið.

Skipta fjórar milljónir á mánuði engu?
Fréttablaðið lagði nýverið upp í hagræðingaraðgerðir og var ein skýringanna sú að blaðið flutti sig yfir í glæsilegt nýbyggt húsnæði í miðborginni, Hafnartorg. Fimm starfsmönnum var sagt upp. Líklega hefðu ríkisstyrkirnir sem „engu breyta“ nægt til að greiða laun allt að fimm starfsmanna með kostnaði.
Frá árinu 1998 hef ég starfað á mismunandi dagblöðum og tímaritum, sem öll hafa átt sammerkt að passað hefur verið upp á hverja krónu í ritstjórnarkostnaði. Við höfum verið fá á ritstjórnum, en samt reynt að sýna metnað. Listinn yfir hæfileikaríkt samstarfsfólk sem hefur unnið til verðlauna fyrir störf sín, þrátt fyrir þrönga stöðu, er langur.
Á fréttaritstjórn Fréttablaðsins 2003 voru til dæmis varla nema tíu óbreyttir blaðamenn að vinna við daglega fréttavinnslu. Á þeim tíma var blaðið lesið af yfir tveimur þriðju landsmanna. Öflugur blaðamaður í fréttum getur að jafnaði unnið eina góða síðu á dag, eftir efni og aðstæðum.
Í öll þessi skipti hefði skipt sköpum fyrir fréttavinnsluna ef við hefðum verið fjögur eða fimm til viðbótar. Það eru samtals fjórar fréttasíður í Fréttablaði dagsins í dag, og svo um fimm síður í vikulegum viðskiptahluta. Að auki fylgir meðal annars kynningarblað, þar sem seldar umfjallanir eru birtar. Í gær var birt grein á forsíðu þess blaðs með fullyrðingu í fyrirsögn um að duft sem er til sölu af hálfu þess sem keypti umfjöllunina „hægi á öldrun líkamans“. Á sama tíma gerir útgefandi Fréttablaðsins út á það í auglýsingum að vera svar við falsfréttavandanum.
Ef engu skiptir að fá fjóra til fimm blaðamenn til viðbótar segir það ýmislegt um rekstrarmódelið og áherslu þar á blaðamennsku. Staðreyndin er hins vegar sú að viðskiptamódel Fréttablaðsins er á hröðu undanhaldi. Það er sannarlega ekki óbreyttu starfsfólki um að kenna, enda hefur ár frá ári aukist álag á blaðamenn og þeir hafa almennt dregist aftur úr í launaþróun.

Meginástæðan fyrir því að Fréttablaðið er í sérstökum vanda er tæknibreytingar. Fríblaðalestur Íslendinga hefur verið óvenjulega mikill á heimsmælikvarða frá aldarmótum, en það er ekki sama ástæða til að halda úti prentuðu fríblaði núna og fyrir tuttugu árum.
Á fjórum árum hefur lestur Fréttablaðsins fallið úr 52 prósent í 38,5 prósent. Sveiflan milli síðustu mælinga, frá mars til apríl, var fall um 0,5 prósentustig. Árið 2010 lásu 77 prósent 18 til 49 ára höfuðborgarbúa Fréttablaðið, en núna hefur það meira en helmingast niður í 37 prósent. Það er ennþá mesti lestur íslenskra blaða, en kostnaðurinn við fjöldaprentunina og frídreifinguna er engu minni í höfuðborginni þótt lestur hafi helmingast.
Líklega hefur ekki hjálpað til sú áhersla stjórnenda Fréttablaðsins á að beina sjónum að hagsmunum eigenda og aðstendenda blaðsins og að hafa beint spjótum að þeim sem sinna skyldum sínum við að leiða fram réttlæti í efnahagsbrotamálum, enda var fyrrnefndur leiðarahöfundur ráðinn ritstjóri og útgefandi eftir öflug skrif um að láta ætti af rannsókn efnahagsglæpa. Það er umhugsunarvert eftir alla reynslu Íslendinga af blekkingum í viðskiptalífinu, að fyrst núna er birtur leiðarinn „Blekking“.
Hitt blaðið sem á að fá ríkisstyrki, en aðrir ekki
Morgunblaðið, sem einnig er uppbyggt af hæfileikaríkum og sérstaklega reynslumiklum blaðamönnum, er að meirihluta í eigu útgerðarfélaga sem kusu að ráða fyrrverandi forsætisráðherra úr Sjálfstæðisflokknum sem ritstjóra. Í skrifum sínum hefur hann lagt talsverða áherslu á að sannfæra lesendur um ágæti Donalds Trump en að sama skapi fagnað því þegar blaðamaðurinn Julian Assange var handtekinn og ákærður vegna starfa sinna. Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er handhafi fjórðungs hlutafjár í Morgunblaðinu, en hefur ekki geta útskýrt hvernig eða hvort hann borgaði einum helsta útgerðarmanni landsins fyrir hlutinn. Blaðið tapaði 284 milljónum króna á síðasta þekkta rekstrarári, sem niðurgreitt er af útgerðarmönnum eins og fyrri tapár.
„Staðreyndin er sú að frumvarpið mun engin áhrif hafa á starfsemi á þessum markaði önnur en þau að hvetja til stofnunar örmiðla,“ skrifar útgefandi Fréttablaðsins. En hóflega reknir fjölmiðlar, sem vaxa og lifa náttúrulega í stað þess að treysta á niðurgreiðslur fjársterka hagsmunaaðila, eru ekki neikvæð fyrirbæri.
Hagsmunir í leiðara
Ríkisstjórnin hefur nú tekið til umræðu breytingar á fjölmiðlalögum sem heimila styrki til einkarekinna miðla, eins og verið hafa á Norðurlöndunum um langt skeið. Nú bíður það þingflokka ríkisstjórnarflokkanna að taka afstöðu. Vitað er að óánægja er með frumvarpið í Sjálfstæðisflokknum.
Nú liggur fyrir að útgefandi Fréttablaðsins nýtir pláss sitt í fríblaðinu til þess að reyna að hafa fyrrgreind áhrif á ákvarðanir stjórnmálamanna um fjárhagsmálefni blaðsins.
Það eru pínleg örlög þess sem fær boð um stuðning í þágu heildarinnar, að kvarta ítrekað undan honum, ásaka þann sem reynir að koma honum til leiðar og reyna að fá flesta aðra en sjálfan sig undanskilda.
Við höfum öll ástæður til að hafa áhyggjur af þróun fjölmiðla, enda treystir lýðræðisríki á þá sem uppsprettu vandaðrar og hlutlausrar upplýsingagjafar. Það er hins vegar lítil ástæða út frá heildarhagsmunum til að niðurgreiða sérstaklega úrelt rekstrarform eða þá sem studdir eru af hagsmunaaðilum, ýta undir samþjöppun og setja öll eggin í sömu körfuna, sama hversu spældir þeir stærstu eru.
---
Fyrirvari um hagsmuni: Höfundur er starfsmaður og eigandi 12 prósent hlutafjár í Útgáfufélaginu Stundinni.
Athugasemdir