Starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Vesturlands hefur sent heilbrigðisráðherra og þingmönnum áskorun þar sem mælt er eindregið gegn því að frumvarpið til laga um þungunarrof verði samþykkt í núverandi mynd.
„Teljum við að það, að kona hafi óskertan rétt til að fá þungun rofna fram að lokum 22. viku þungunar, sé allt of langt gengið og vegið sé að rétti hins ófædda barns,“ segir í yfirlýsingunni. Jafnframt kemur fram að starfsmennirnir telji það afturför að kona „eigi kost“ á fræðslu og ráðgjöf fagfólks eftir því sem þörf krefur fremur en að henni sé „skylt“ að fá slíka ráðgjöf.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp heilbrigðisráðherra til laga um þungunarrof fer fram á Alþingi í kvöld. 22 vikna tímamörkin í frumvarpinu eru í samræmi við ráðgjöf Félags fæðinga- og kvensjúkdómalækna, Landspítalans og Ljósmæðrafélags Íslands.
Heilbrigðisstarfsfólk á Vesturlandi kallar eftir því að atkvæðagreiðslunni verði frestað og málið fái lengri umfjöllun. „Teljum við ótækt að kalla það þungunarrof, verði að framkalla fæðingu því lífi móður sé stefnt í hættu eftir lok 22. viku. Við krefjumst þess að miðað verði að hámarki við lok 20. viku þungunar,“ segir í yfirlýsingunni.
Athugasemdir