Viðskiptabankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust samtals um 10,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi ársins. Hagnaðurinn dregst saman miðað við sama tímabil í fyrra, þegar bankarnir högnuðust um 12,1 milljarð. Morgunblaðið greinir frá.
Samdráttur í afkomu Arion banka skýrir hluta af muninum. Uppgjörið litast af gjaldþroti WOW air, en bankinn þurfti að afskrifa 222 milljóna króna skuldabréfaeign sína á hendur félaginu. Þá tapaði Valitor, dótturfélag bankans, í máli sem Wikileaks höfðaði gegn því í héraðsdómi Reykjavíkur og þarf félagið að greiða 1,2 milljarða króna í skaðabætur.
„Hvað óreglulega liði varðar þá eru það einkum gjaldþrot WOW air og dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli gegn Valitor sem hafa neikvæð áhrif á afkomuna en sala bankans á hlut sínum í Farice vegur upp á móti,“ segir Stefán Pétursson, starfandi bankastjóri Arion banka.
Hagnaður Landsbankans dróst einnig saman, úr 8,1 milljarði króna á fyrsta fjórðungi 2018 í 6,8 milljarða nú. Hagnaður Íslandsbanka jókst milli ára, úr 2,1 milljarði króna í 2,6 milljarða.
Athugasemdir