Ungir jafnaðarmenn báðu Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar, um að segja alfarið af sér þingmennsku í janúar síðastliðnum vegna ósæmilegrar hegðunar hans gagnvart blaðakonu. Ungliðahreyfingin upplýsir um þetta á Facebook í ljósi endurkomu Ágústs á þing.
„Það er krafa Ungra jafnaðarmanna að allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hagi sér af betri háttsemi en hefur fengið að líðast. Breytingar þurfa að eiga sér stað í stjórnmálamenningunni,“ segir í yfirlýsingu Ungra jafnaðarmanna.
Ágúst Ólafur tók sæti á Alþingi á dögunum eftir nokkurra mánaða leyfi. Sagðist hann hafa horfst í augu við vanmátt sinn gagnvart áfengi og óska eftir öðru tækifæri.
Sema Erla Serdar, fyrrverandi formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, gagnrýnir forystu flokksins harðlega fyrir að taka ekki harðari afstöðu gegn kynferðislegri áreitni:
„Ég hef verið í Samfylkingunni í meira en áratug og gegnt hinum ýmsu ábyrgðarstöðum fyrir flokkinn, meðal annars stöðu formanns framkvæmdastjórnar flokksins. Mér hefur oft misboðið meðvirknin og vinnubrögðin innan flokksins en sjaldan jafn mikið og nú. Að taka ekki skýra afstöðu gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum tilvikum er hræsni,“ skrifar Sema.
„Ég er viss um að það myndi heyrast hærra í flokksfélögum mínum ef þingmaður annars flokks gerðist sekur um kynferðislega áreitni og sæti sem fastast á þingi. Hvað Ágúst Ólaf varðar getur hann beðið um annað tækifæri í prófkjöri flokksins og/eða hjá kjósendum í næstu kosningum. Samfélagsmiðlar duga bara ekki til.“
Athugasemdir