Forsætisráðuneytið, Einkaleyfastofan og Ríkissáttasemjari hafa greitt félagsgjöld fyrir starfsmenn sem eiga aðild að Exedra, tengslaneti kvenna úr stjórnmálum, stjórnsýslu, atvinnulífi og fjölmiðlum, í ár og í fyrra.
Samtökin eru rekin sem einkahlutafélag, Exedra ehf., sem er í eigu Sigþrúðar Ármann lögfræðings og Evu Hrundar Einarsdóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Akureyri. Fyrirtækið var stofnað árið 2006 sem „vettvangur fyrir valinn hóp áhrifamikilla kvenna“ að því er áður kom fram á vef þess. Fríblaðið Sirkús lýsti Exedra sem „leynifélagi“ árið 2007 sem hefði verið „líkt við rótarýklúbb og/eða Frímúrararegluna“.
Félagið hefur haldið mánaðarlega fundi um árabil og jafnframt skipulagt skemmtiferðir kvenna til útlanda, en ráðherrar, bankastjórar, framkvæmdastjórar fyrirtækja og forstöðumenn opinberra stofnana hafa verið í hópi félaga.
Fjallað er um Exedra í meistararitgerð Valgerðar Jóhannesdóttur viðskiptafræðings frá 2009 og rætt við aðila að samtökunum undir nafnleynd. „Almennt í tengslanetum þurfum við að vera óhræddar við að nota þetta sem viðskiptatækifæri,“ er haft eftir einum viðmælandanum. „Að við ætlum að nýta okkur þetta í starfi og skömmumst okkar ekkert fyrir það að leita hver til annarrar á viðskiptalegum forsendum og þá þarf að hnippa í konur svolítið hvað það varðar.“
Forsætisráðuneytið greiddi félagsgjöld að upphæð 63.500 krónur til Exedra í janúar 2018. Í ár lögðu Einkaleyfastofan og Ríkissáttasemjari 74.500 krónur hvort vegna félagsgjalda starfsmanna.
Athugasemdir