Samtökin Orkan okkar sem berjast gegn þriðja orkupakkanum halda því fram á vef sínum að með innleiðingu þriðja orkupakkans muni Íslendingar glata ákvörðunarvaldinu um lagningu sæstrengs til Íslands.
„ACER mun skera úr um hvort umsóknir um sæstreng til Íslands verði samþykktar. Hvorki íslensk stjórnvöld eða Alþingi munu geta staðið gegn slíkri framkvæmd,“ segir á vefnum. „Þess vegna m.a. töldu lögfræðingarnir Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson í álitsgerð sinni til utanríkisráðuneytisins að reglugerð 713/2009 samrýmist ekki stjórnarskrá Íslands.“
Þetta er rangt. Engin ákvæði í gerðum þriðja orkupakkans veita ACER, hinni samevrópsku Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, vald til að ákveða hvort lagður verði sæstrengur milli Íslands og Evrópu eða ekki. Raunar mun hún ekki geta gefið íslenskum stjórnvöldum nein bindandi tilmæli yfir höfuð.
Valheimildir sem ACER fer með innan Evrópusambandsins verða í höndum Etirlitsstofnunar EFTA (ESA) gagnvart EFTA-ríkjunum. 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 veitir ESA, undir sérstökum kringumstæðum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, vald til að taka lagalega bindandi ákvarðanir um skilmála og skilyrði fyrir aðgangi að og rekstraröryggi grunnvirkis yfir landamæri. ESA mun þó ekki fá neinar heimildir til að neyða Íslendinga til að leggja eða leyfa sæstreng. Engin ákvæði í gerðum þriðja orkupakkans gefa tilefni til að draga slíka ályktun.
Lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Friðrik Árni Friðriksson Hirst árétta þetta raunar sérstaklega í álitsgerð sinni um stjórnskipuleg álitamál varðandi þriðja orkupakkann. „Þriðji orkupakkinn leggur enga skyldu á aðildarríki um að koma á fót raforkutengingu/grunnvirkjum yfir landamæri,“ skrifa þeir. Þannig er fullyrðingin um viðhorf þeirra á vef Orkunnar okkar röng.
Skúli Magnússon, héraðsdómari og dósent við lagadeild HÍ, er sama sinnis og þeir hvað þetta varðar. Í álitsgerð sinni um stjórnskipuleg álitamál varðandi þriðja orkupakkann segir hann „hafið yfir vafa að afleiddur réttur sambandsins, þ.á m. umræddar gerðir þriðja orkapakkans, fela ekki í sér skyldu til slíkrar framkvæmdar eða til skyldu til að leyfa þær“ auk þess sem „heimildir Eftirlitsstofnunar EFTA/Samstarfsstofnunarinnar beinast ekki að ákvörðunum um slíkar framkvæmdir“.
Fleiri rangar fullyrðingar eru settar fram á vef Orkunnar okkar. Þar segir til dæmis: „Verði þriðji orkumarkaðslagabálkur ESB innleiddur, taka ákvæði fjórfrelsis EES markaðarins gildi.“ Hið rétta er að meginreglur EES-samningsins um fjórfrelsið gilda nú þegar um íslenskan raforkumarkað og breytir þriðji orkupakkinn engu um það.
Athugasemdir