Stærsti hluthafi íslenska laxeldisfyrirtækisins Arnalax á Bíldudal, norski laxeldisrisinn Salmar, hefur ákveðið að greiða hluthöfum félagsins arð upp á rúmlega 2,6 milljarða norskra króna eða rúmlega 36 milljarða íslenskra króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til norsku kauphallarinnar.
Salmar er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi. Arðgreiðslan er háð því að hún verði samþykkti á aðalfundi fyrirtækisins en það er stjórn félagsins sem leggur hana til eftir stjórnarfund sem haldinn var í gær. Arðgreiðslan er upp á 23 norskar krónur á hlut, eða rúmlega 295 íslenskar krónur.
Arnarlax er stærsta laxeldisfyrirtæki á Íslandi með laxeldiskvóta upp á 22 þúsund tonn. Það eru í reynd þessi verðmæti sem Salmar falast eftir þar sem sambærilegur laxeldiskvóti í Noregi myndi kosta fyrirtækið um 36 milljarða íslenskra króna ef fyrirtækið ætlaði að kaupa slíkt framleiðsluleyfi. Í Noregi myndu þessir fjármunir renna til norska ríkisins en á Íslandi þá kosta laxeldisleyfin ekki neitt þannig að íslenska ríkið fær enga fjármuni fyrir leyfin. Fjárfestarnir í laxeldisfyrirtækjunum geta hins vegar selt hlutabréf sín í fyrirtækjunum fyrir háar fjárhæðir þar sem laxeldiskvóti gengur kaupum og sölum fyrir hátt verð í öðrum löndum eins og Noregi.
Arðgreiðsla frá Salmar til hluthafa sinna byggir hins vegar ekki á starfsemi Arnarlax. Ástæðan er sú að Arnarlax er ennþá í uppbyggingarfasa og hefur ekki ennþá skilað hagnaði jafnvel þó hlutabréf fyrirtækisins gangi kaupum og sölum fyrir milljarða króna vegna þeirra væntinga sem gerðar eru til framtíðar fyrirtækisins.
Aðrir hluthafar seldu ekki
Salmar er orðinn meirihlutaeigandi í Arnarlaxi eftir að hafa keypt upp hlutabréf íslensku fjárfestanna Tryggingamiðstöðarinnar og Fiskisunds fyrr á árinu en bæði félögin innleystu mikinn hagnað af hlutabréfaviðskiptum sínum í Arnarlaxi. Salmar átti fyrir rúmlega 49 prósenta hlut í Arnarlaxi og bætti við sig 13 prósenta hlut frá þessum tveimur íslensku félögum.
Í annarri tilkynningu frá Salmar í Noregi kemur fram að félagið eigi nú rúmlega 63 prósenta hlut í Arnarlaxi í gegnum norskt móðurfélag þess, Salmar AS. Í þeirri tilkynningu kemur fram að frestur annnarra hluthafa Arnalax að samþykkja yfirtökutilboð Salmar í hlutabréf þeirra í Arnarlaxi hafi runnið út í gær.
Miðað við tilkynninguna hefur félagið ekki bætt verulega við sig í Arnarlaxi eftir kaupin á bréfum Tryggingamiðstöðvarinnar og Fiskisunds og hafa flestir eftirstandandi hluthafar Arnarlax, meðal annars norski milljarðamæringurinn Petter Stordalen og stjórnarformaðurinn Kjartan Ólafsson, ekki selt hlutabréf sín í Arnarlaxi.
„Allir sem hafa verið með hingað til hafa í raun komið mjög vel út úr því“
Stjórnarformaðurinn græðir að tjaldabaki
Kjartan Ólafsson hefur hins vegar selt hlutabréf í Arnarlaxi áður og hagnast vel á því. Eins og Stundin frá í febrúar seldi Kjartan hlutabréf í Arnarlaxi fyrir tæplega 340 milljónir króna árið 2017. Þetta gerði Kjartan í gegnum eignarhaldsfélagið sitt, Gyðu ehf., og var bókfærður hagnaður Gyðu ehf. þetta ár rúmlega 204 milljónir króna. Þetta sama ár greiddi móðurfélag Gyðu, Berg fjárfesting, út 125 milljóna króna arð til Kjartans og eiginkonu hans og ráðgerði að greiða út 50 milljóna króna arð í fyrra. Um þetta segir í ársreikningi Gyðu fyrir árið 2017: „Félagið er eignarhaldsfélag utan um hlutabréfaeign í Arnarlax A/S. Á árinu seldi félagið hluta af eign sinni í félaginu.“
Kjartan vildi ekki tjá sig um viðskiptin við Stundina: . „Ég vil ekki tjá mig í fjölmiðlum um persónuleg viðskipti fjölskyldunnar.“
Hann sagði hins vegar, almennt séð, að verðmætin í íslensku laxeldi væru orðin umtalsverð. „Ég veit að þetta eru orðin umtalsverð verðmæti. Allir sem hafa verið með hingað til hafa í raun komið mjög vel út úr því. Og ég gæti hoppað út núna því það liggur fyrir tilboð í hlutabréfin en ég kýs að gera það ekki,“ sagði Kjartan sem heldur eftir rúmlega 2 prósenta hlut í Arnarlaxi eftir yfirtöku Salmar á meirihluta hlutabréfa í laxeldisfyrirtækinu.
Athugasemdir