Ef Íslendingar færu fram á að hefja viðræður innan sameiginlegu EES-nefndarinnar um að Ísland falli að mestu eða öllu leyti utan við orkuviðauka EES-samningsins myndi slíkt vekja upp grundvallarspurningar um stöðu Íslands í EES-samstarfinu. Vandséð er að Íslendingar hafi hag af því að taka EES-samninginn til sérstakrar endurskoðunar. Þetta er mat utanríkisráðuneytisins.
„Hvað varðar kröfur um að gera breytingar í heild sinni á efni viðauka við EES-samninginn, sem hefur verið hluti hans frá undirritun, felst krafa um að hefja viðræður um endurskoðun EES-samningsins, a.m.k. hvað hlutaðeigandi viðauka við EES-samninginn varðar,“ segir í svari Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra við ítarlegri fyrirspurn Óla Björns Kárasonar um þriðja orkupakkann sem birtist á vef Alþingis á gær.
Utanríkisráðuneytið bendir á að viðaukar við EES-samninginn eru órjúfanlegur hluti samningsins sjálfs en meginmarkmið hans er að tryggja einsleitt regluverk á Evrópska efnahagssvæðinu. Í því felst meðal annars að löggjöf ESB sem varðar innri markaðinn sé tekin upp í EES-samninginn.
Þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins hafa laggst eindregið gegn því að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans. „Hvað er svona hættulegt vð að segja nei við þessu? Þetta fer þá bara fyrir sameiginlegu EES-nefndina og við bara tökum á því þar. Látum bara reyna á málið fyrir sameiginlegu EES-nefndinni,“ sagði Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, í umræðu um málið rétt í þessu. Sigurður Páll Jónsson og Ólafur Ísleifsson, þingmenn sama flokks, töluðu með svipuðum hætti í gær.
Utanríkisráðherra virðist telja þetta óráð. „Af hálfu allra samningsaðila EES-samningsins hefur hingað til verið lítill áhugi á að hefja viðræður um endurskoðun EES-samningsins, enda gætu slíkar viðræður falið í sér að tekin yrðu upp að nýju viðkvæm málefni sem tókst að miðla málum um við gerð samningsins, m.a. varðandi stofnanauppbyggingu samningsins og efnislegar skuldbindingar,“ segir í svarinu.
„Mestu máli skiptir í þessu samhengi að veigamestu undanþágur EFTA-ríkjanna, þ.m.t. undanþága Íslands frá fjárfestingum í sjávarútvegi og fjárframlög þeirra til sjóða ESB, yrðu endurskoðaðar. Almennt hefur verið talið ólíklegt að þrjú EFTA-ríki gætu náð hagstæðari samningum við ESB en sjö EFTA-ríki gerðu á sínum tíma í samningaviðræðum við þáverandi tólf aðildarríki ESB um EES-samninginn. Það er því vandséð að Ísland hefði hag af því að taka EES-samninginn upp með þessum hætti.“
Athugasemdir