Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir erlenda aðila ganga hart fram í umræðu um þriðja orkupakka Evrópusambandsins á Íslandi.
„Í þessari umræðu er það, í mínu minni, í fyrsta skipti sem erlendir aðilar eru á fleygiferð að skipta sér af íslenskum stjórnmálum. Og þessir aðilar eru ekki að hugsa um íslenska hagsmuni,“ sagði ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. „Svo ég tali alveg skýrt þá er ég hér að vísa til samtaka og stjórnmálaflokka í Noregi sem veigra sér ekkert við því að vaða hér inn með allra handa fullyrðingar um þessi mál sem sjaldnast eða nokkurn tímann standast neina skoðun.“
Guðlaugur Þór mælir fyrir þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann á Alþingi í dag. Í þingsályktunartillögunni er lagt til að Alþingi heimili ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um upptöku þriðja orkupakkans í EES-samninginn „á þeirri forsendu að engin grunnvirki yfir landamæri eru nú fyrir hendi á Íslandi sem gera mögulegt að flytja raforku á milli Íslands og orkumarkaðar ESB“. Þannig munu ákvæði þriðja orkupakka ESB um slík grunnvirki, þar á meðal í reglugerð (EB) nr. 713/2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði, ekki eiga við eða hafa raunhæfa þýðingu á Íslandi.
Samtökin Orkan okkar sendu Alþingi áskorun í morgun um að hafna þriðja orkupakkanum og hófu undirskriftasöfnun gegn innleiðingu reglnanna í íslenskan rétt.
Athugasemdir