Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir áhyggjuefni að öfl sem daðri við verstu birtingarmyndir kynþáttahaturs og útlendingaandúðar skuli óáreitt fá að skipuleggja námskeið á hóteli í miðri Reykjavík með áherslu á vopnaburð og hermennsku.
Stundin greindi frá því í dag að öryggis- og herskólinn European Security Academy Iceland hefði boðað til kynningarfundar um námskeið í vopnaburði, öryggisgæslu og skyldum verkefnum í Reykjavík. Rætt var við þátttakendur sem vilja nýta sér námskeiðið til að verjast innflytjendum sem koma til Íslands. „Ef þetta heldur svona áfram í Evrópu þá endar þetta með skotvopnum. Því miður,“ sagði einn af viðmælendum Stundarinnar.
Samtök hernaðarandstæðinga hafa fordæmt viðburðinn á Facebook. Guttormur bendir á að í síðasta mánuði hafi öfgamaður og útlendingahatari framið hryðjuverk á Nýja-Sjálandi þar sem fimmtíu manns voru myrtir. „Glæpur þessi hefur orðið mörgum íhugunarefni, enda hafði Nýja-Sjáland til þessa verið talið friðsælt og ólíklegur vettvangur slíkra voðaverka. Viðbrögð samfélagsins hafa falið í sér eindregna höfnun á ofbeldi og hatri,“ segir hann og bætir því við að fyrirtækið sem heldur námskeiðið hafi meðal annars þjálfað öfgahægrihópa í Úkraínu. „Við hvetjum stjórnendur hótelsins til að endurskoða þá ákvörðun að heimila afnot af sölum sínum fyrir slíka starfsemi,“ segir hann.
Athugasemdir