Stjórn Eikar fasteignafélags leggur til fyrir aðalfund félagsins 10. apríl að samþykkt verði að greiða hluthöfum samtals 1.020.000.000 krónur í arð vegna ársins 2018. Félagið hagnaðist um rúmlega tvo og hálfan milljarð króna eftir tekjuskatt á rekstrarárinu.
Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar og ársskýrslu félagsins. Arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2017 námu 915 milljónum króna, en það árið nam hagnaður um 3,8 milljörðum króna eftir tekjuskatt.
Eignasafn Eikar er tæpir 310 þúsund fermetrar og rúmlega 100 fasteignir. 450 leigutakar eru í yfir 600 leigueiningum félagsins. Stærstur hluti þess er skrifstofu- og verslunarhúsnæði. 91% af eignasafninu er á höfuðborgarsvæðinu. Virði fasteigna félagsins nam 98 milljörðum króna í árslok 2018.
Lífeyrissjóðir eru stærstu hluthafar í félaginu með 54% hlutafjár. Næst á eftir koma verðbréfasjóðir með 15%, einkahlutafélög með 12%, bankar og safnreikningar með 11%, tryggingafélög með 5% hlutafjár og einstaklingar eiga 3%.
Athugasemdir