Aðilar vinnumarkaðarins leggja mikið upp úr því að skapa aðstæður sem geri Seðlabankanum kleift að lækka vexti. Samkvæmt heimildum Stundarinnar verður sérstakt forsenduákvæði í kjarasamningnum um að honum megi segja upp ef vaxtalækkanir verða ekki að veruleika.
Samninganefndir Samtaka atvinnulífisins og VR, Eflingar, Starfsgreinasambandsins, Framsýnar og Verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur hittust hjá Ríkissáttasemjara í morgun en stefnt er að því að ljúka samningsgerð upp úr hádegi og undirrita samninga um eftirmiðdaginn.
Framlag ríkisstjórnarinnar til svokallaðra lífskjarasamninga felst meðal annars í 9 þúsund króna skattalækkun til lágtekjufólks í stað þeirrar 6700 króna lækkunar sem áður var boðuð. Þá verða skerðingarmörk barnabóta hækkuð og ráðist í stóraukna uppbyggingu íbúðarhúsnæði, aðgerðir til að bæta kjör leigjenda og lagabreytingar til að draga úr vægi verðtryggingar.
Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sagði í Silfri Egils síðustu helgi að ef samið yrði um hóflegar launahækkanir yrði mögulegt að lækka vexti. „Það er staðreynd að verkalýðshreyfingin ræður þessu. Ef hún fer þá leið að semja um miklar hlutfallslegar launahækkanir þá hafa þær þær afleiðingar að verðlag mun hækka og fólk fer að búast við verðbólgu og þá verður ekki hægt að lækka vexti, þá þurfa þeir að fara upp og helst meira en verðbólgan,“ sagði hann.
Aðilar vinnumarkaðarins telja sig hafa náð samkomulagi sem skapi skilyrði til lækkunar vaxta. Þetta muni draga úr greiðslubyrði heimila, stuðla að lækkun leiguverðs, flýta fyrir að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði og ýta undir fjárfestingu. Er þetta slík grundvallarforsenda að lagt er upp með að segja megi samningum upp ef vaxtalækkanir verða ekki að veruleika.
Athugasemdir