Hátt í eitt þúsund manns munu missa vinnuna vegna gjaldþrots WOW air, að sögn Skúla Mogensen, forstjóra fyrirtækisins sem veitti RÚV viðtal í aukafréttatíma í hádeginu.
„Þau hafa haldið uppi WOW-stemmningunni þrátt fyrir þetta áfall,“ segir Skúli um starfsfólk fyrirtækisins. „Við vorum brautryðjendur í lággjaldafluginu og náðum frábærum árangri.“
Skúli segist ekki vera með á hreinu hvað sé eftir af eignum í félaginu. „Ég setti aleiguna í þennan rekstur,“ segir Skúli en nefnir ekki upphæð. „Ég lagði allt mitt í þetta.“
Skúli segir að ytra umhverfið hafi verið erfitt og fjöldi flugfélaga hafi farið í þrot. Hann viðurkennir að hann hefði átt að hefja endurskipulagningu fyrirtækisins fyrr. „Ég hefði átt að byrja fyrir ári síðan,“ segir Skúli. „Ég trúi því að ef við hefðum fengið meiri tíma hefðum við klárað þetta.“
Hann segist ekki vita hversu margir hafi keypt flugmiða til framtíðar sem ekki verði staðið við. Aðspurður hvort það hafi verið óábyrgt að segja fólki að óhætt væri að kaupa miða segir Skúli að hann hafi ætlað sér að klára viðræðurnar. „Ég trúði því og sagði það af einlægri sannfæringu á þeim tíma enda vorum við í viðræðum og komnir langt í viðræðum við fjölda manns,“ segir hann. „Ég var nú eiginlega bara njörvaður niður í það sæti að sætta mig við staðreynd málsins.“
Skúli segir að það hefði verið óábyrgt að skila inn flugrekstarleyfinu fyrr og reyna ekki til þrautar að ná lausn á málinu. „Ég axla ábyrgð á stöðunni og geri það áfram,“ segir Skúli.
„Auðvitað er maður bara ennþá í sjokki,“ segir Skúli að lokum. „Þessu verki er því miður lokið og ég vildi innilega óska þess að því hefði lokið öðruvísi. En ég stend hérna ennþá.“
Athugasemdir