Isavia, þjónustufyrirtækið sem sinnir rekstri flugvalla á Íslandi, stöðvaði flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli í morgun, til tryggingar á ógreiddum notendagjöldum.
Fregnir bárust af því í nótt að flugvélar WOW air færu ekki frá Bandaríkjunum til Íslands, eftir að leigusali lét kyrrsetja þær. Beitti Isavia í kjölfarið stöðvunarheimild á grundvelli loftferðalaga til að tryggja að skuld WOW air fengist endurgreidd.
„Mér hefur verið sagt að verðmæti vélar af þessari gerð dekki skuldina,“ segir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við Stundina. „Við venjulega ræðum ekki upphæðir í svona tilvikum, en við teljum vélina næga tryggingu fyrir þessari skuld.“
Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að félagið harmi endalok reksturs WOW air. „Það er ljóst að brotthvarf WOW air mun hafa áhrif á rekstur Keflavíkurflugvallar,“ segir í tilkynningunni. „Isavia mun á næstunni fara yfir hver þau áhrif kunni að verða. Starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli mun aðstoða farþega WOW air eftir bestu getu í dag og næstu daga.“
Athugasemdir