Einn af mörgum viðskiptavinum Wow Air sem ekki komust leiðar sinnar í dag er Ólöf Anna Ólafsdóttir, sem átti flug heim til Íslands frá Alicante með flugfélaginu í morgun.
Ólöf og eiginmaður hennar ferðast talsvert á milli Íslands og Spánar yfir vetrartímann og hafa því fylgst vel með öllum fréttum af Wow að undanförnu. Ólöf Anna segist hafa heyrt frá Skúla í gær og orðið sannfærð um að allt yrði í lagi. „Hann var svo öruggur með sig í viðtalinu og svaraði spurningum á svo afgerandi hátt,“ segir Ólöf í samtali við Stundina. „Hann var spurður út í hvort hann væri viss um að það myndi ganga upp með að semja við kröfuhafa og sagði já við því, allt væri að ganga upp og nú ætti bara eftir að hnýta lausa enda. Svo var hann spurður mjög afgerandi spurningar í lok viðtalsins: Er óhætt fyrir fólk að kaupa flugmiða? Svarið var skýrt: Já.“
Í kjölfarið keypti Ólöf Anna miða heim til Íslands, eftir að hafa látið sannfærast. „Mér finnst hann Skúli ekki hafa komið vel fram, mér finnst þetta ekki fallegt. Hann hlýtur að hafa vitað eitthvað meira. Það hafa ekki allir efni á að punga út fyrir hótelherbergi skömmu fyrir mánaðamót. Fólk getur fengið hjartaáfall af svona löguðu.“
„Mér finnst þetta ekki fallegt. Hann
hlýtur að hafa vitað eitthvað meira“
Ólöf og maðurinn hennar hafa að undanförnu leigt íbúð í smábænum Guardamar, sem er á milli Torrevieja og Alicante. Maðurinn hennar hafði farið heim til Íslands á undan henni en henni var farið að leiðast úti einni og langaði heim. Þess vegna var miðinn keyptur í gærkvöldi. Hún er hins vegar ekki illa stödd, að eigin sögn, því hún þarf ekki að kaupa sér hótelherbergi eins og margir þeir sem eru á ferðalagi og komast ekki heim.
„Þetta er ekkert alvarlegt fyrir okkur. Það væsir ekkert um mig hér úti, í 20 stiga hita og sól. Þetta er ekkert miðað við þessar hörmungar sem eru að dynja yfir. En það leiðinlega í þessu er að hafa treyst þessu.
Ég lenti líka í þessu skömmu fyrir hrun. Það var vorið 2008, þegar ég var í íbúðarhugleiðingum en hafði efasemdir um að það væri rétt að kaupa. Þá kom einn af þessum mikilvægu mönnum sem maður treysti fram í sjónvarpinu og sagði að þetta yrði allt saman í lagi. Ég keypti íbúðina eftir að hafa hlustað á það, gat svo ekki selt hina íbúðina og lenti í tómu tjóni. Svo kaupi ég núna flugmiða á sömu forsendum, af því að einhver mikilvægur segir að allt sé í lagi. En Ísland er bara ekki í lagi. Maður verður nú að fara að átta sig á því.“
Fullyrti að fólki væri óhætt að kaupa miða
Bjartsýni hefur einkennt viðmót Skúla Mogensen undanfarna daga. Í viðtali við Vísi á þriðjudag kom hann fram og sagði stöðuna góða. „Staðan er nokkuð góð eftir fréttir dagsins þar sem við vorum að tilkynna að skuldabréfaeigendur hafa samþykkt að breyta kröfum sínum í hlutabréf í félaginu. Þar með erum við að styrkja félagið allverulega þannig að það er jákvætt skref í rétta átt,“ sagði Skúli þá.
„Ég segi með miklu öryggi, við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera og hvert við erum að fara“
Tvær vélar höfðu þá þegar verið kyrrsettar, önnur á Miami, hin í Kanada. Skúli sagðist hins vegar bjartsýnn á að kyrrsetningunni yrði aflétt og að félagið væri á réttri leið.
Um leið sagði hann að sala á flugmiðum gengi vel. „Bókanir inn á apríl og annan ársfjórðung hafa líka gengið vel. Ég held að það sýni þann mikla stuðning og traust sem við höfum notið,“ sagði Skúli. „Ég segi með miklu öryggi, við vitum nákvæmlega hvað við erum að gera og hvert við erum að fara og við sjáum árangurinn nú þegar skila sér.“
Aðspurður hvort það verði rask á flugi næstu daga eða vikur svaraði Skúli því aðeins til að allar vélar hefði farið út á réttum tíma þann morgunin, fyrir utan smá seinkun á einum eða tveimur stöðum. Að lokum var Skúli spurður beint út: Hvað með neytendur, er þeim óhætt að kaupa áfram miða með Wow air? „Já,“ svaraði Skúli.
Athugasemdir