Stjórnendur WOW air báru upp hugmyndir síðustu helgi um ríkisábyrgð á lánafyrirgreiðslu frá Arion banka til að tryggja rekstur félagsins til skemmri tíma. Markaðurinn greinir frá, en ósennilegt er talið að stjórnvöld ljái máls á hugmyndunum.
Fjárhagsstaða WOW air er þröng, samkvæmt heimildum Markaðarins, og viðræður um kaup Indigo Partners á flugfélaginu eru tvísýnni en áður. WOW air hefur til 29. apríl til að ganga frá samningum, að því gefnu að skuldabréfaeigendur sem fjárfestu í útboði WOW air fyrir andvirði 7,9 milljarðar króna síðasta haust fallist á afskriftir af höfuðstól bréfanna. Hafa einnig verið óformlegar þreifingar við Icelandair um aðkomu að málinu.
Loks herma heimildir Markaðarins að WOW air þurfi öllum stundum að hafa eina vél úr flota félagsins tiltæka á Keflavíkurflugvelli. Er það trygging vegna skulda WOW air við Isavia og getur Isavia þannig kyrrsett vélina ef skuldirnar eru ekki gerðar upp.
Athugasemdir