Carmen Jóhannsdóttir hefur kært Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, fyrir kynferðislega áreitni.
„Ég, Carmen Jóhannsdóttir, lýsi því hér með yfir að ég hef lagt fram kæru á hendur Jóni Baldvini Hannibalssyni vegna kynferðislegrar áreitni sem hann beitti mig á heimili sínu í Salobreña, Spáni þann 16. júní árið 2018,“ skrifar Carmen í yfirlýsingu sem hún sendi á Stundina rétt í þessu.
„Málið er nú komið í hendur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ég ber fullt traust til embættisins og trúi því að málið verði rannsakað af fagmennsku. Að teknu tilliti til þessa mun ég ekki tjá mig meira um málið opinberlega að svo stöddu.“
Jón Baldvin neitaði að svara spurningum Stundarinnar þegar blaðamaður hafði samband við hann í dag.
Sjö konur hafa stigið fram undir nafni og sakað Jón Baldvin um kynferðislegra áreitni. Alls hafa 23 konur birt sögur sínar á vefsíðu og halda frásagnir áfram að berast í sérstökum MeToo hópi kvennanna á Facebook. Jón Baldvin hefur ítrekað sagt að sögurnar eigi allar rætur að rekja til veikinda dóttur sinnar.
Nýjasta tilfellið varðar atvik þegar Carmen, 34 ára, og móðir hennar, vinkona Jóns Baldvins og Bryndísar Schram, voru staddar í veislu á þaki heimilis hjónanna í Andalúsíu á Spáni. Þær segja að Jón Baldvin hafi káfað á rassi Carmenar. „Ég horfði á þetta gerast,“ sagði móðir hennar í samtali við Stundina.
Jón Baldvin afskrifaði hins vegar atvikið í viðtali í Silfrinu á RÚV á þeim forsendum að hann hafi það vottfest frá Hugrúnu Jónsdóttur, sem einnig var viðstödd, að hún hefði ekki orðið vör við snertinguna. „Veislan á þakinu var sviðsett. Hún er ósönn. Ég meina það, að það getur ekki verið neitt annað að baki þessari heimsókn en að setja þetta á svið.“ Aðspurður hvers vegna móðirin ætti að koma í heimsókn til að „siga dóttur sinni“ á hann: „Það er ekki mitt að skýra það.“ Hann kvaddist einnig vera með bók um málið í undirbúningi.
Athugasemdir