„Krakkarnir eru að safna undirskriftum sem á að afhenda stjórnvöldum. Það hlýtur að vera hægt að fara fram á endurupptöku þessa máls,“ segir Þorbjörg Halldórsdóttir, sem kennir íslensku sem annað mál við Hagaskóla. Einn nemenda hennar er Zainab Safari. Í síðasta tölublaði Stundarinnar birtist viðtal við hana, móður hennar og bróður. Þeim hefur í tvígang verið synjað um efnislega meðferð á máli sínu á Íslandi og bíða þess nú að verða flutt úr landi. Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá hvernig Zainab lýsir líðan sinni á Íslandi.
Zainab sagði nemendaráði, nemendafulltrúum og réttindaráði Hagaskóla sögu sína í gær. Þorbjörg segir að það hafi reynt á alla viðstadda að hlusta á hana. „Hún er svo ótrúlega hugrökk og gerði þetta mjög vel. Hún lýsti ferðalagi fjölskyldunnar frá Íran til Tyrklands. Hvernig þau gengu tímunum saman í fjalllendi og sváfu úti í miklum kulda. Hvernig þau gerðu nokkrar tilraunir til að komast á báti yfir til Grikklands og hvernig stöðugt var logið að þeim og þau svikin. Að lokum komust þau yfir til Grikklands en þá reyndist lífið þar mjög erfitt. Þau bjuggu við mjög hættulegar aðstæður. Það var erfitt að hlusta á þessu frásögn, enda var ekki þurrt auga í salnum. Zainab hefur gengið í gegnum skelfilega reynslu oftar en einu sinni,“ segir Þorbjörg.
„Það var erfitt að hlusta á þessu frásögn, enda var ekki þurrt auga í salnum.“
Þegar Zainab frétti af því að Kærunefnd útlendingamála hefði, eins og Útlendingastofnun, synjað fjölskyldunni um efnislega meðferð fór hún langt niður og hætti að mæta í skólann. Mamma hennar kom í fylgd túlks í skólann og sagði frá því að dóttir hennar vildi helst ekki lifa lengur. En kennararnir kölluðu hana á fund og sannfærðu hana um að halda áfram að koma í skólann. Það væri betra en að bíða heima, eftir því að verða færð í burtu.
„Við hér í skólanum ætlum að gera allt sem við getum til að hjálpa henni. Hún er hlý og góð stúlka, ofsalega vandvirk og á auðvelt með nám. Svo er hún listræn, góð að teikna og kann að föndra ótrúlegustu hluti. Þetta er hæfileikarík stelpa og það er engin spurning að hún á að fá framtíð hér, á okkar landi,“ segir Þorbjörg og bætir við að lokum: „Að ætla að senda þau í burtu er ólýsanleg grimmd. Ég hefði aldrei getað trúað því að þetta gæti gerst á Íslandi. Við höfum allt að bjóða hér og getum ekki sent sárfátæka og veika móður með tvö börn út í þessar hryllilegu aðstæður. Þau þurfa hjálp og skjól. Þau hafa orðið fyrir alvarlegum áföllum og hafa engan möguleika á að takast á við lífið í því ófremdarástandi sem ríkir í Grikklandi.“
„Við höfum allt að bjóða hér og getum ekki sent sárfátæka og veika móður með tvö börn út í þessar hryllilegu aðstæður.“
Réttindaráð Hagaskóla sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem fyrirætlun stjórnvalda um að vísa Zainab og fjölskyldu hennar úr landi er mótmælt harðlega. „Zainab er 14 ára nemandi í Hagaskóla sem hefur þurft að ganga í gegnum hluti sem enginn ætti að þurfa að ganga í gegnum. Hún finnur til öryggis á Íslandi, er í góðum bekk í Hagaskóla og líður vel með nemendum og starfsmönnum sem styðja við bak hennar,“ segir í tilkynningunni. „Réttindaráð fer fram á að stjórnvöld endurskoði ákvörðun sína með hliðsjón af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið lögleiddur á Íslandi en í 3. grein sáttmálans segir að „allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.“
Til stendur að halda viðburð og fjáröflun til að vekja athygli á málinu og styðja við fjölskylduna í næstu viku.
Athugasemdir