Sigríður Andersen ætlar ekki að segja af sér embætti dómsmálaráðherra þrátt fyrir að Mannréttindadómstóll Evrópu telji hana hafa framið alvarleg lögbrot sem leiddu til þess að brotið var gegn mannréttindum dómþola við Landsrétt. Þetta hefur komið fram í viðtölum við hana í hádegisfréttum Bylgjunnar og Rásar 1.
„Já, ég tel það nú,“ sagði Sigríður aðspurð hvort hún teldi að dómararnir fjórir, sem skipaðir voru við Landsrétt í trássi við mat hæfnisnefndar sumarið 2017, gætu setið áfram og kveðið upp dóma í Landsrétti. Þetta er í samræmi við ummæli Birgis Ármannssonar, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, sem benti á það í viðtali við Mbl.is að Hæstiréttur hefði komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir annmarka á ferlinu þá séu dómararnir rétt skipaðir. „Þó að Mannréttindadómstóllinn tjái sig um túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans, þá er hann ekki æðsta dómsvald á Íslandi,“ sagði Birgir.
Af 61. gr. stjórnarskrárinnar leiðir að dómurunum fjórum verður ekki vikið úr embætti nema með dómi. Mannréttindadómstóll Evrópu telur hins vegar að það stangist á við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að borgarar þurfi að sæta því að vera dæmdir af þeim, slíkt uppfylli ekki kröfur mannréttindareglna um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstól.
Landsréttur hefur ákveðið að fresta dómsmálum sem hinir ólöglega skipuðu fjórmenningar dæma í út vikuna. Sigríður Andersen hafnar því að Landsréttur sé í uppnámi vegna málsins. „Nei alls ekki,“ sagði hún aðspurð um málið í hádegisfréttum Rásar 1.
Eins og íslenskir dómstólar hafa margstaðfest vanrækti dómsmálaráðherra rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar við val á dómurum í Landsrétt og sýndi ekki fram á að þeir dómarar sem hún valdi væru hæfustu umsækjendurnir. Fyrir vikið var brotið gegn öðrum umsækjendum um dómarastöðurnar og hafa þeim verið dæmdar bætur.
Nú liggur fyrir að einnig var brotið gegn mannréttindum fólks sem hefur verið dæmt í Landsrétti síðan dómstóllinn tók til starfa. Má því vænta þess að farið verði fram á endurupptöku og miskabætur í fjölda mála sem fjórmenningarnir hafa dæmt. Þá vakna spurningar um mál sem sýknað hefur verið í fyrir Landsrétti. Á meðal slíkra mála sem vakið hafa athygli er Aurum-málið svokallaða þar sem Jón Ásgeir Jóhannesson og fleiri voru sýknaðir í fyrra.
Athugasemdir