Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi forystumaður jafnaðarmanna á Íslandi, segir að nemendur í Hagaskóla á áttunda áratug síðustu aldar hljóti að hafa upplifað nærveru hans með einhverjum annarlegum hætti. Þeir verði að „díla við það sjálfir“ en hann vilji gjarnan hitta konurnar sem saka hann um kynferðislega áreitni.
Þetta kemur fram í svari Jóns Baldvins við tölvupósti Stundarinnar þar sem honum var boðið að svara fyrir ásakanir fyrrverandi nemenda. Áður hafði Jón Baldvin sagt að engin gögn fyndust um að hann hefði kennt bekkjardeild kvennanna sem báru á hann sakir en Borgarskjalasafn afhenti Stundinni stundatöflu sem staðfesti hið gagnstæða. „Hvað myndir þú segja? Hvernig myndir þú bregðast við ásökunum sem þessum? Eitthvað sem átti að eiga sér stað í kennslustofu fyrir næstum hálfri öld? Settu þig nú í mín spor,“ segir Jón Baldvin.
Að því er fram kom í viðtali við Jón Baldvin í Silfri Egils í febrúar vinnur hann nú að bók um ásakanirnar á hendur sér sem ber titilinn „Vörn fyrir æru: Hvernig fámennur hópur öfgafemínista hefur sagt réttarríkinu stríð á hendur.“ Undanfarnar vikur hefur hann skrifað greinar í Fréttablaðið þar sem hann varar við því að mannorð fólks sé eyðilagt, án dóms og laga, í nafni kynjajafnréttis.
Matthildur Kristmannsdóttur lýsti í viðtali við Stundina þann 11. janúar að Jón Baldvin hefði reglulega látið hana sitja eftir að loknum íslenskutímum í Hagaskóla, snert hana, sleikt og gengið lengra í hvert skiptið. María Alexandersdóttir, sem var í sama bekk, sagðist hafa óttast að verða næst, enda hefði Jón Baldvin strokið og grúft sig yfir hana í tímum.
Aðspurður um málið segist Jón Baldvin hafa leitað gagna til að vita hvort hann hefði kennt þessum bekk. Hann kannist hvorki við nöfn kvennanna né lýsingar þeirra. „Enda eru þær fáránlegar og ótrúverðugar. Ég hef rætt við marga af mínum nemendum frá þessum árum (sem margir hverjir hafa orðið vinir mínir fyrir lífstíð) og allir bera mér góða söguna. Og það sem meira er – telja þessa sögu fáránlega. Enginn þeirra treystir sér þó að koma fram undir nafni. Sem segir okkur nákvæmlega þá sögu sem við erum að reyna að segja. Það er að segja, ég einn.“
„Mér finnst það bara undarlegt að slíkt sé tekið marktækt“
Jón Baldvin segir málið fráleitt. „Viltu kannski rannsaka hlutina áður en þú setur þá á prent? Af hverju hringirðu þá ekki í það fólk sem var í þessum umtalaða bekk og færð þá til að segja frá? Eða er tilgangur þinn einn og sá eini að dæma áttræðan mann fyrirfram fyrir það sem hann ekki gerði?“ Rétt er að taka fram að Stundin hefur rætt við tvo bekkjarfélaga Matthildar Kristmannsdóttur og Maríu Alexandersdóttur, alls fjóra fyrrverandi nemendur Jóns Baldvins, sem ber saman um atburði.
„Ef að nærvera mín sem forfallakennara í 2. bekk Hagaskóla þótti um of, þá get ég ekkert sagt um það. Þeir sem upplifðu þá nærveru á einhvern annarlegan hátt, þurfa að díla við það sjálfir – og mér finnst það bara undarlegt að slíkt sé tekið marktækt. Það er ekkert sem ég get sagt um það. Ég myndi gjarnan vilja fá að hitta þessar tvær, ef þær vilja það. Þá getum við rætt málin.“
Athugasemdir