Tæp 56 prósent aðspurðra segjast vera mjög eða frekar sammála fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur. Tæpur þriðjungur aðspurðra er andvígur.
Þetta kemur fram í könnun Zenter fyrir Fréttablaðið sem framkvæmd var 28. febrúar og 1. mars. Alls svaraði 1.441 úr könnunarhópnum, allt fólk eldra en 18 ára, og voru svörin viktuð eftir aldri, kyni og búsetu.
Félögin fjögur hafa tilkynnt um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir eftir að kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins sigldu í strand fyrir skemmstu. „Ég átti allt eins von á verri niðurstöðu miðað við hve hörð og óvægin orðræðan hefur verið og framsetningin á tillögum okkar,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, um niðurstöður könnunarinnar.
Minnstur stuðningur við verkföllin er hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins, en aðeins um fimmtungur þeirra styður aðgerðirnar. Næstminnstur stuðningur er hjá Framsóknar- og Viðreisnarfólki, en um 60 prósent kjósenda Vinstri grænna styðja aðgerðirnar. Hjá þeim sem kjósa Flokk fólksins, Samfylkinguna eða Pírata mælist stuðningurinn 70-80 prósent.
„Miðað við hvað kjaramál hafa fengið mikið pláss í umræðunni að undanförnu kemur mér á óvart að það sé ekki meiri stuðningur við verkföll en þarna birtist. Sér í lagi þar sem flestir gera ráð fyrir að það séu einhverjir aðrir en þeir sjálfir sem fari í verkföll,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, um könnunina. „Verkföll í kólnandi hagkerfi, loðnubresti og þegar flugfélögin eru í kröppum dansi er mikið hættuspil með óljósa útkomu.“
Athugasemdir