Stjórn starfsmannafélags Ráðhúss Reykjavíkur hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem framgöngu borgarfulltrúa er mótmælt. „Óskað er eftir því að starfsfólk fái frið til að vinna vinnuna sína án þess að störf þess séu gerð tortryggileg og án þess að vera blandað í stjórnmálaumræðu sem á með réttu að eiga sér stað á milli kjörinna fulltrúa og á pólitískum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.
Tveir starfsmenn hjá Reykjavíkurborg hafa hætt síðan síðasta vor og fjöldi starfsmanna og stjórnenda kvartað vegna meiðandi og særandi orðræðu borgarfulltrúa, að því er starfsmannastjóri greinir frá. Stefán Eiríksson borgarritari birti í gær harðort bréf þar sem borgarfulltrúum minnihlutans var líkt við „tudda á skólalóð“.
Í tilkynningu starfsmannafélagsins er áréttað að ekki eigi að gera starfsfólk Reykjavíkurborgar og störf þess að opinberu umtalsefni í pólitískum tilgangi.
„Í stjórnsýslu borgarinnar starfar fólk sem þykir vænt um vinnuna sína og vinnur af heiðarleika og einlægni að hag borgarbúa út frá ákvörðunum og stefnu borgarstjórnar hverju sinni,“ segir í tilkynningunni. „Stjórnin minnir á að möguleikar starfsfólks til þátttöku í umræðunni og til þess að koma störfum sínum til varnar eru mjög takmarkaðir.“
Athugasemdir