Fréttablaðið birtir í dag, öðru sinni á nokkurra daga tímabili, viðtal við Sigurð Pálma Sigurbjörnsson þar sem hann kynnir nýja verslun sína, Super1 við Hallveigarstíg. Í sama blaði er einnig að finna heilsíðuauglýsingu fyrir verslunina.
Sigurður Pálmi er sonur Ingibjargar Pálmadóttur, útgefanda Fréttablaðsins. Áður rak hann íþróttavöruverslunina Sports Direct í Kópavogi en til að fjármagna hlutafjáreign sína í fyrirtækinu fékk hann rúmlega 20 milljóna króna lán frá Guru Invest, skattaskjólsfélagi móður sinnar. Stundin fjallaði um málið árið 2016.
Undanfarnar vikur hefur Fréttablaðið birt viðtöl við útgefanda blaðsins, eiginmann hennar, son hennar og stjórnarformann fyrirtækis hennar.
Á blaðsíðu tvö í síðasta helgarblaði birtist frétt um nýja verslun Sigurðar Pálma við Hallveigarstíg. „Það er bara gríðarleg stemning í hópnum og það má segja að við höfum framkvæmt kraftaverk,“ var haft eftir honum. „Sigurður Pálmi hyggst verða eins konar kaupmaður á horninu,“ sagði í fréttinni.
Fréttin sem birtist í dag, nú í fylgiritinu Markaðnum, bætir efnislega litlu við hina fyrri. Um er að ræða frekari kynningu á Sigurði Pálma og verslunarrekstri hans auk þess sem hann fær tækifæri til að gagnrýna keppinauta sína. „Að mínu mati glíma margar keðjur við stefnuleysi og vita ekkert hvert þær eru að fara. Margar af stóru keðjunum eru að missa tenginguna við viðskiptavini,“ segir hann.
„Ég hef gaman að því að vasast í rekstri“
Þá er haft eftir Sigurði Pálma að hann sé enginn fjárfestir. „Það er ekki mitt. Kannski verður maður það einhvern tímann. En ég hef gaman að því að vasast í rekstri. Það er fátt skemmtilegra en að fara í búðir skoða og pæla. Á kvöldin er ég yfirleitt á netinu að reyna að fá hugmyndir um hvað hægt sé að gera betur og reyna að skilja betur þarfir viðskiptavina.“
Athugasemdir