Fjármálaráðuneytið fullyrti í fréttatilkynningu í gær að skattbyrði lágtekjufólks myndi lækka um 2 prósentustig ef fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar í skattamálum yrðu að veruleika. Bjarni Benediktsson hélt þessu einnig fram á blaðamannafundi og hefur staðhæfingin endurómað í fjölmiðlum.
Ef marka má það talnaefni sem varpað var upp á blaðamannafundinum er það hins vegar aðeins hluti lágtekjufólks fær 2 prósentustiga lækkun á skattbyrði sinni. Þetta eru einkum þeir fullvinnandi launamenn sem eru með í kringum 300 þúsund króna tekjur á mánuði. Tugþúsundir framteljenda sem sannarlega teljast lágtekjufólk munu fá talsvert minni lækkun skattbyrðar, t.d. lágtekjufólk sem vinnur mikla yfirvinnu.
Ef miðað er við tölur Hagstofunnar fyrir árið 2017 og þau áhrif skattalækkunarinnar sem sýnd eru í kynningarefni fjármálaráðuneytisins virðist lækkun skattbyrðinnar hjá fiskvinnslufólki, ræstingarstarfsmönnum og verkafólki í byggingariðnaði verða að meðaltali nær einu prósentustigi en tveimur.
Í talnaefninu kemur fram að framteljendur sem eru með árstekjur á bilinu 2 til 2,5 milljónir fái 0,92 prósentustiga lækkun á skattbyrði sinni og framteljendur með 2,5 til 3 milljóna árstekjur fái 1,48 prósentustiga lækkun. Auk þess fái fólk með 375 þúsund króna mánaðarlaun aðeins 1,69 prósentustiga lækkun skattbyrðar. Að þessu leyti stangast kynningarefnið um áhrif skattalækkunarinnar á við fullyrðinguna sem birtist í fréttatilkynningu ráðuneytisins.
Í glærusýningu fjármálaráðherra eru mánaðarlegar tekjur hópa bornar saman við þá árlegu lækkun skatta sem felst í tillögum ríkisstjórnarinnar. Með þessu er dregin upp villandi mynd af áhrifum fyrirhugaðra breytinga, skattalækkunin í raun tólffölduð.
Flestir framteljendur sem eru með mánaðartekjur yfir 325 þúsund krónum fá sömu skattalækkunina ef tillögur ríkisstjórnarinnar verða að veruleika en skattar hinna tekjulægri lækka minna. Engu að síður eru skattatillögur ríkisstjórnarinnar kynntar undir yfirskriftinni „Skattbyrði minnkuð á lágtekjufólk“ á vef fjármálaráðuneytisins.
Fjármálaráðuneytið áætlar að skattkerfisbreytingarnar muni kosta ríkissjóð 14,7 milljarða. Í ljósi þess hvernig skattalækkunin teygir sig upp tekjustigann er ljóst að drjúgur hluti þessara 14,7 milljarða mun renna til fólks sem er vel yfir meðaltekjum.
Athugasemdir